Færsla grunnskólans til sveitarfélaganna

75. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 17:28:35 (3356)


[17:28]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég mundi gjarnan vilja beina þeirri spurningu til hæstv. félmrh., sem var að svara fyrirspurn hvernig yrði staðið að flutningi alls reksturs grunnskóla til sveitarfélaganna: Hvað verður með fræðsluskrifstofur? Hvernig verða þær reknar og er farið að ræða það hvernig það kemur til sveitarfélaganna? Og hvað með lífeyrisréttindi kennara? Það er líka stórt mál sem ég heyrði ekki að hæstv. ráðherra nefndi neitt. En ég tel bæði þessi mál, fræðsluskrifstofurnar og lífeyrisréttindi kennara, vera eitt af stærstu málunum í því að flytja grunnskólann til sveitarfélaga. Ekki bara að flytja launagreiðslurnar, það er kannski ekki mesta málið hvort þær fara í gegnum tölvu frá Ríkisbókhaldi eða hvort þær fara í gegnum tölvu frá sveitarfélögunum.