Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 15:02:19 (3366)


[15:02]
     Petrína Baldursdóttir :
    Virðulegur forseti. Hér er til umræðu frv. um staðfestingu bráðabirgðalaga um stöðvun verkfalls fiskimanna í nokkrum aðildarfélögum sjómanna. Ég vil lýsa þeirri afstöðu minni að í grundvallaratriðum er ég mótfallin því að kjaradeilur í landinu séu leystar með bráðabirgðalögum. Þetta átti kannski við einhvern tíma þegar samgöngur voru erfiðar og það var meira mál að kalla Alþingi saman. Stjórnvöld hafa alltaf gert of mikið af því að leysa tilteknar kjaradeilur með setningu bráðabirgðalaga og það tel ég vera hættulega þróun.
    Þeir aðilar sem eiga í kjaradeilum eiga auðvitað að leysa sín mál við samningaborðið. Í þessari tilteknu deilu sem hér er til umfjöllunar sökuðu báðir aðilar hvor annan um að bíða eftir lausn deilunnar með setningu bráðabirgðalaga frá stjórnvöldum. Ég legg ekki dóm á það hér hvort eitthvert sannleiksgildi er í því en það gefur auga leið að sú tilhugsun getur spillt fyrir eðlilegri úrlausn mála. Ég tel að miðað við þá stöðu sem upp var komin í þessari deilu hafi það verið neyðarúrræði fyrir ríkisstjórnina að setja þessi bráðabirgðalög. Það var engin lausn á deilunni í sjónmáli og málið var komið í það mikinn hnút og langur tími hefði getað liðið þar til lausn væri fundin. Með tilliti til þess tel ég að setning bráðabirgðalaganna hafi verið nauðsynleg. Þjóðarbúið hefði ekki þolað að verkfallið stæði öllu lengur. Þjóðarhagsmunir voru þarna að mínu mati settir í öndvegi.
    Alþingi Íslendinga ber mikla ábyrgð á því hvernig þessi mál hafa þróast á sl. árum. Þetta verða þingmenn að horfast í augu við. Þeir bera ábyrgð á því kerfi sem hér er við stjórn fiskveiða. Þeir bera ábyrgð á því að sala aflaheimilda hefur þróast í þá átt að sjómenn hafa verið látnir taka þátt í þeim, m.a. með ákvæði í lögunum um algerlega frjálst framsal aflakvóta. Það verður að koma í veg fyrir sjómenn séu látnir taka á einhvern hátt þátt í kvótakaupum.
    Þær tillögur sem liggja nú fyrir varðandi kvótaþing eru ákveðin lausn en það er ekki endanleg lausn að mínu mati. Alþingi verður í þeirri vinnu sem er fram undan í umræðum um stjórn fiskveiða að taka það til vandlegrar athugunar hvernig á að koma í veg fyrir að sjómenn séu látnir taka þátt í kvótakaupum. Lög um stjórn fiskveiða verða að fara að komast í fastar skorður. ( Gripið fram í: Ég er sammála því.)
    Margir sem um þessi mál fjalla telja að það vanti einmitt stöðugleika í lög um stjórn fiskveiða sem

að mörgu leyti er eðlilegt. Öll kerfi þurfa ákveðinn aðlögunartíma og með tilliti til þess að við setningu laga koma oft einhverjir vankantar í ljós eins og hefur gerst í fiskveiðikerfinu, t.d. með viðskipti aflaheimilda og fleira, þarf að sníða vankanta af kerfinu. Þetta þarf að hafa í huga við umræðu um stjórn fiskveiða og leita leiða til að setja lög að fenginni reynslu sem dugað geta og allir hagsmunaaðilar verða tiltölulega sáttir við.
    Virðulegur forseti. Að lokum vil ég aðeins benda á það að í bráðabirgðalögunum, sem gefin hafa verið út, stendur 1. gr., með leyfi forseta:
    ,,Nefndin skal gera tillögur um hvernig koma megi í veg fyrir að viðskipti með aflaheimildir hafi óeðlileg áhrif á skiptakjör og undirbúa nauðsynlega löggjöf í þeim efnum.``
    Ég get ekki skilið þetta. Geta viðskipti með aflaheimildir haft eðlileg áhrif á skiptakjör sjómanna? ( Gripið fram í: Nei.) Ég kem því ekki alveg heim og saman og ég vildi bara benda á að mér finnst þetta dálítið skrýtið. ( Gripið fram í: Þetta er bara kolvitlaust.)