Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 15:32:03 (3376)


[15:32]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að fara að blanda mér í deilur um hverjir séu ráðgjafar forsrh. í þessu máli. Ég bendi hins vegar á það, varðandi launakjör fyrir svona ráðgjöf, að allir þeir ráðgjafar sem eitthvað mark er á takandi, taka ekki laun fyrir sína ráðgjöf, ef það leysir eitthvað úr þessu.
    ( Forseti (VS) : Forseti vill vekja athygli á óróa í þingsalnum.)
    Virðulegur forseti. Ég vonast til þess að hér komist kyrrð á í salnum. En það er alveg ljóst að fundur hv. 1. þm. Austurl. og forsrh. hefur vakið athygli margra og reyndar finnst manni óróa enn fleiri, hvernig sem á því stendur.
    Virðulegi forseti. Það sem við erum að fjalla hér um eru bráðabirgðalög sem hæstv. ríkisstjórn setti í þinghléinu. Að mínu mati er afar sorglegt að við þurfum að standa í þessum sporum nú. Ég tók það þannig þegar gengið var til breytinga á lögum um þingsköp Alþingis fyrir um fjórum árum síðan, að það væri raunverulegur vilji Alþingis að draga mjög úr því að bráðabirgðaákvæðum væri beitt. Og ég er þeirrar skoðunar að það hafi engum af þeim sem voru að vinna að þessari löggjöf þá dottið í hug að menn færu að grípa til bráðabirgðalaga undir þeim kringumstæðum sem hér voru núna, þar sem ekki voru nema nokkrir dagar í að þing kæmi saman og það hefði verið hægt að kalla Alþingi saman með nokkurra klukkutíma fyrirvara. Ég minni á í þessu sambandi að í umræðum í haust sagði hæstv. forsrh. að eftir á að hyggja hefðu það verið mistök að kalla ekki þing saman sumarið 1992 þegar lögin voru sett á Kjaradóm. Það er stundum gott að vera vitur eftir á, en það er slæmt ef menn eru jafnfljótir að gleyma.

    Mér er ómögulegt að skilja, ef ríkisstjórnin mat það þannig að það þyrfti að setja lög í þessu tilfelli, af hverju var ekki hægt að kalla Alþingi saman. Ég vil reyndar setja þetta í samhengi við þá umræðu sem varð í haust um breytt vinnubrögð Alþingis og þá nýju verkaskiptingu sem þá var komið á varðandi forustu í nefndum, m.a., að mínu mati, til þess að gera stjórnarandstöðuna ábyrgari í störfum þingsins, kalla hana til meiri ábyrgðar. Og ég er alveg sannfærður um að það hefði verið hægt að ná samkomulagi um það að afgreiða þetta mál á skömmum tíma ef ríkisstjórnin taldi að hún hefði fyrir því þingmeirihluta. En það er nú annar kapítuli í þessu, að það hefur margsinnis komið fram að ríkisstjórnin hafði ekki fyrir því að kanna hvort hún hefði þingmeirihluta fyrir málinu.
    Mín fyrstu viðbrögð við þessari frétt voru reiði og mér fannst á þeirri stundu, mér er kannski að einhverju leyti runnin reiðin núna, að stjórnarandstaðan hefði átt að íhuga mjög rækilega hvort hún ætti ekki að draga til baka þátttöku sína í nefndarformennsku í þinginu ef ríkisstjórnin ætlaði að koma til móts við Alþingi á þann hátt sem hún hefur sýnt með setningu þessara bráðabirgðalaga. Þetta sýnir í mínum huga að hjá ríkisstjórninni hefur ekkert breyst. Viðhorf ríkisstjórnarinnar til Alþingis er nákvæmlega það sama og það var fyrir það samkomulag sem hér varð í haust. Stjórnarandstaðan hefur hins vegar, að mínu mati, og það held ég að nánast hver sem er geti vottað, staðið sína plikt hvað þetta snertir. Það er ríkisstjórnin sem bregst og það er ekki eingöngu í þessu tilfelli.
    Menn tala um að það hefði ekki verið hægt að kalla þingið saman því þá hefðu staðið umræður um málið dögum saman. Ég hef reyndar sagt að ég teldi að það hefði átt að vera hægt að semja um það. En þá spyr ég á móti: Hvað ef þessi deila hefði komið upp og þingið hefði setið? Átti þá að senda þingið heim til þess að hægt væri að afgreiða málið með þeim hraða sem ríkisstjórnin taldi að þyrfti til þess? Ég vil, virðulegi forseti, varpa þeirri spurningu til hæstv. sjútvrh. hvort það sé hans skoðun að ef þingið hefði setið þegar þessi deila fór í þennan hnút þá hefði átt að senda þingið heim til að ríkisstjórnin hefði frjálsar hendur til lagasetningar. Það er ekki svo mikill munur á þessu. Þó einhverjum finnist að ég sé með útúrsnúninga í máli mínu þá er ekki svo mikill munur á þessu, því þarna var þingið eingöngu sent heim í þessu tilfelli yfir blájólin. Ég vil varpa þessari spurningu til hæstv. ráðherra.
    Annað atriði sem ég vildi koma inn á er hvers vegna málið var komið í þennan hnút milli sjómanna og útgerðarmanna. Það er mín skoðun að aðalástæðan fyrir því sé einföld. Hún er sú að það var engin pólitísk samstaða innan stjórnarflokkanna og hefur ekki verið á þessu kjörtímabili, til þess að taka á málefnum sjávarútvegsins. Þar hefur allt verið látið reka á reiðanum og loksins þegar ríkisstjórnin kom að þessu máli eftir áramótin fór það svo að hvert það orð sem gekk af munni ráðherranna, og það á kannski sérstaklega við um hæstv. forsrh., varð til þess að hleypa málinu í harðari hnút.
    Ef menn ætla að beita bráðabirgðalögum og ef menn ætla að beita bráðabirgðalögum á deilu sem þessa, þá byrja menn ekki á því að hóta því eins og hæstv. forsrh. gerði með tveggja daga fyrirvara. Menn reyna eftir föngum að leysa deiluna af heilindum og ef það gengur ekki þá setja menn bráðabirgðalög þegjandi og hljóðalaust. Ekki með því að hóta því með tveggja daga fyrirvara. Þegar sú hótun lá í loftinu þá var alveg ljóst að það yrði ekki samið.
    Ég ætla ekki að taka sterka efnislega afstöðu til þess hvort það hefði á endanum þurft að leysa þessa deilu með lögum. En ég vil þó benda á eitt í þessu sambandi, að ég held að það hvað stjórnvöldum, og ég er kannski ekki endilega að tala um þessa ríkisstjórn, er orðin laus höndin á lagasetningarpennanum þegar vinnudeilur eru annars vegar, sé beinlínis farið að hafa áhrif á kjaradeilur. Aðilar að deilunum séu beinlínis farnir að spila á það að það geri ekki svo mikið til þó þeir gefi glannalegar yfirlýsingar og hleypi kannski málinu í einhvern hnút því það verði alltaf komið og málið leyst með lögum.
    Ég geri mér grein fyrir því að það er margt öðruvísi í okkar þjóðfélagi í dag heldur en var í árdaga kjarabaráttu á Íslandi og beiting verkfallsvopnsins er miklu flóknari í dag heldur en þá var. En eftir stendur samt að þetta er réttur stéttarfélaga og það ber að virða hann nema mjög mikið liggi við. En ég mun koma aftur að því sem ég nefndi áðan, að það sem að mínu mati gerði það að verkum öðru fremur að það fór í þennan harða hnút milli útgerðarinnar og milli sjómanna var það að ríkisstjórnin hafði ekki pólitískt þrek, náði ekki pólitískri samstöðu, til þess að taka á augljósum annmörkum þess stjórnkerfis sem við búum við. Þó ég sé þeirrar skoðunar að við munum ekki hverfa í grundvallaratriðum frá því að vera með kvótakerfi við stjórnun fiskveiða þá er það jafnljóst að reynslan hefur kennt okkur að þar eru ákveðnir þættir sem verður að taka á. Það verður m.a. að setja ákveðnari reglur um viðskipti með aflaheimildir. Um það hafði ríkisstjórnin enga forustu, þetta mál er búið að vera heitt deilumál innan stjórnarflokkanna allt kjörtímabilið og ég geri í sjálfu sér ekkert með það þó að okkur hafi verið sagt fyrir áramótin að þar væri komið eitthvert samkomulag.
    Mér hefur sýnst og það hefur m.a. verið staðfest í viðvarandi deilu innan ríkisstjórnarinnar um landbúnaðarmál, að samkomulag sem þessir stjórnarflokkar segjast hafa náð í viðkvæmum deilumálum heldur ekkert. Það er ekki þornað á því blekið þegar ráðherrarnir eru farnir að grafa undan samkomulaginu hver í sínu lagi, hver á sínum vettvangi, hver hjá sínum flokki. Þannig að ég geri ekki nokkurn skapaðan hlut með slíkt plagg fyrr en ég er búinn að sjá það í þessu máli að hæstv. sjútvrh. komi því í gegnum þingið. Það er nú orðið svo að núv. hæstv. ríkisstjórn er orðin sérfræðingur í því að lögfesta pólitískar málamiðlanir milli flokkanna. Kannski var frægasta dæmið um það í skattamálum fyrir rúmu ári síðan þegar lögfestur var kafli upp úr hvítu bókinni um meðferð og skattlagingu hlutafjár og sett í lög fyrir jólin 1992

hvernig skyldi með fara á árinu 1995 og seinna. Þetta er því miður að verða þannig, eftir að þessi ríkisstjórn hefur setið að völdum, að lagasafnið er að verða fullt af svona atriðum þar sem stjórnarflokkarnir eru að lögfesta samkomulag sem í sumum tilfellum á ekki að taka gildi fyrr en eftir einhver ár. Það voru reyndar fleiri slík dæmi fyrir jólin í fyrra, ef ég man rétt, varðandi skattlagningu og sumt sem átti ekki að taka gildi fyrr en á næsta kjörtímabili, en vonandi sitjum við ekki uppi með ríkisstjórnina sem hér situr þá.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mikið fleiri orð um þetta núna. Ég vildi fyrst og fremst koma á framfæri þessu tvennu. Annars vegar að að mínu mati er það algjörlega óásættanlegt að sett séu bráðabirgðalög við þær aðstæður sem nú eru. Það á að kalla þing saman, það á að draga Alþingi til ábyrgðar við lagasetningu. Það er svolítið sérstakt að bráðabirgðaákvæðið er kannski öðru fremur inni vegna þess að það var svo erfitt, það tók svo langan tíma að ná Alþingi saman hér áður fyrr. Nú er þessu algjörlega snúið við. Það er hægt að kalla Alþingi saman á deginum, en nú bera menn því fyrir sig að það taki þá svo langan tíma að afgreiða málið í þinginu. Ég vil í þessu tilfelli, virðulegur forseti, varpa þeirri spurningu fram til hæstv. sjútvrh.: Hefur hæstv. ríkisstjórn þá reynslu af yfirstandandi þingi að hér hafi ekki verið hægt að koma málum fram vegna þess að stjórnarandstaðan hafi þvælst fyrir þeim með málalengingum? Ég vil biðja hæstv. ráðherra að líta yfir störf þingsins frá því í haust og hæstv. ráðherra hugleiði hvort það sé svo. Mitt svar er ósköp einfalt: Það er ekki svo.
    Það sem hefur tafið hér mál, m.a. alla afgreiðslu í kringum fjárlög í vetur, er ekki málæði stjórnarandstöðunnar, það er einfaldlega það að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki komið málum fram. Hæstv. ríkisstjórn var að koma með öll stóru málin, önnur en fjárlagafrv., á síðustu dögum og vikum þingsins fyrir jól, m.a. sjávarútvegsmálin sem að sjálfsögðu var ekki hægt að afgreiða með öllu öðru sem þurfti að afgreiða á tveimur, þremur dögum fyrir jól.