Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 16:25:49 (3379)


[16:25]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. 6. þm. Vestf. fullyrti hér í ræðu sinni að kostnaður við Fiskistofu hefði farið margfalt fram úr því sem ráðgert var og að auki hefði starfsmannafjöldi margfaldast við þau störf sem þar eru unnin við þá skipulagsbreytingu. Ég hef heyrt hv. þm. bera þessar fullyrðingar á borð áður í ræðum hér á hinu háa Alþingi, en með því að hv. þm. er nú kunnur fyrir mjög málefnalegar umræður, þá þykir mér nauðsynlegt að grípa hér inn í og leiðrétta þennan misskilning því að ég þykist vita að hv. þm. vilji ekki endurtaka þessar fullyrðingar sem ekki eru á rökum reistar.
    Sannleikurinn er sá að kostnaður við þau störf sem Fiskistofa vinnur hefur ekki aukist við skipulagsbreytinguna og starfsmönnum hefur fækkað en ekki fjölgað. Mig minnir að þeim hafi fækkað um tíu. Ég þori ekki að fara með þá tölu nákvæmlega sem er um það bil það sem starfsmannafækkunin hefur orðið. Það var ekki markmið með þessum breytingum að draga úr kostnaði eða fækka starfsmönnum, heldur fyrst og fremst að koma við mjög nauðsynlegum skipulagsbreytingum og betri stjórnsýsluháttum varðandi þessi viðfangsefni. En það er mjög mikilvægt að öllum hv. þm. sé það ljóst að hér hefur starfsmönnum fækkað og kostnaður hefur ekki aukist og ég þykist vita að hv. þm. vilji hafa það sem sannara reynist, enda kunnur af málefnalegri umfjöllun um þau mál sem hún fjallar um.