Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 16:32:49 (3383)


[16:32]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég fer ekki dult með þá skoðun mína að sú ákvörðun hæstv. ríkisstjórnarinnar að setja bráðabirgðalög er ákvörðun sem verður að skoða sem aðför að sjómönnum. Ástæðan er sú að þeir eru látnir standa í þeirri blekkingu að þeir hafi frelsi til þess að fara í verkfall. Það tekur þó nokkurn tíma að undirbúa það verkfall, það kostar fjármuni, það er byrjuð að hlaðast upp sú spenna að þeir séu að ná einhverjum tökum á sínum viðsemjanda þegar allur sá kostnaður og öll sú fyrirhöfn sem þeir eru búnir að leggja á sig er brotin á bak aftur og verkfallinu frestað því að þetta frv. er frv. um að fresta verkfallinu þangað til í fyrsta lagi til 5. júní 1994.
    Hinn fáránleiki þessa frv., og mætti hæstv. sjútvrh. gjarnan hugleiða hann, er fyrsta greinin. 1. gr. í þessu frv. er sá fáránleiki að ég er mjög hissa á löglærðum ráðherra að hann skuli nokkurn tíma setja nafn sitt undir. Þar er hæstv. sjútvrh. að setja bráðabirgðalög á sjálfan sig. Og ég spyr: Var vonlaust að ná samkomulagi við hæstv. sjútvrh. um að gera með góðu það sem hann skal nú gera samkvæmt lagaboði? Var gersamlega vonlaust að hæstv. sjútvrh. treysti sér til að skipa nefnd, fela henni verkefni nema lög yrðu sett, undirrituð af forseta Íslands þar sem honum væri skipað að vinna þetta verk. --- Ég sé að hæstv. forseti þingsins situr hugsi við að lesa þetta plagg. Það er nefnilega alvarlegt mál að ef slík kergja er hlaupin í hæstv. sjútvrh. að hann treysti sér ekki til að vinna jafnauðvelt verk af fúsum og frjálsum vilja, hvort honum beri þá ekki að segja af sér. Að taka jólaleyfi þingmanna til þess að setja bráðabirgðalög á sjálfan sig, er alveg fádæmt, fátítt að mönnum skuli yfir höfuð detta það í hug. En auðvitað er hæstv. sjútvrh. eini maðurinn sem er dómbær á þá hluti hvort brýn nauðsyn hafi borið til að gera þetta eða ekki. Svo fáránleg er 1. gr. Þetta blasir við.
    Varðandi hinar greinarnar allar er það tvennt sem verður að taka afstöðu til. Í fyrsta lagi: Þurfti að setja bráðabirgðalög eða var hægt að kalla þingið saman? Og í annan stað: Er eðlilegt að ein stétt manna skuli búa við það að það sé nokkuð öruggt að á hana séu sett lög, í þessu tilfelli sjómenn?
    Mér er ljóst að í vinnumálalöggjöf Bandaríkjanna er það ákvæði inni að forsetinn getur tekið ákvörðun um að fresta verkföllum. Það ákvæði er almenns eðlis og nær til allra. Ég tel að það væri ekkert óeðlilegt að menn tækju umræðu um það hér hvort þingheimur er reiðubúinn að breyta vinnulöggjöfinni á þann veg að slíkt ákvæði sé inni. En það verður þá að ná yfir alla. Það þýðir ekkert að halda því fram að sjómenn eigi að standa verr að vígi en aðrir í kjarabaráttu hvað þetta varðar. Það þverbrýtur réttlætisvitund hvers einasta manns að horfa á þær leikreglur að fyrst hæli framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands sér af því að nú sé komið slíkt atvinnuleysi í landinu að það þori enginn í verkfall. Það fer auðvitað enginn í verkfall. Glaðbeittur veifar hann þessu framan í þjóðina en kemur svo bljúgur þegar búið er að setja bráðabirgðalög. Leikreglurnar þurfa að liggja fyrir áður en til átakanna er komið. Það eru hin heiðarlegu vinnubrögð.
    Það sem vekur verulega umhugsun er: Var vonlaust að kalla þingið saman? Var óeðlilegt að kalla þingið saman? Ég held að það sé fullkomlega tímabært undir þessum kringumstæðum að kynna sér það hvað formaður þingflokks sjálfstæðismanna á sínum tíma, hæstv. menntmrh. þessa lands í dag, Ólafur G. Einarsson, sagði um þessi mál. Hann segir svo í ræðu sem hann flutti á Alþingi Íslendinga 16. október 1990, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Herra forseti. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem til umræðu kemur hér á hv. Alþingi hugmynd um annaðhvort að þrengja réttinn til útgáfu bráðabirgðalaga eða fella hann alfarið niður, eins og raunar kom fram í máli hv. flm. þessa frv. og kemur einnig fram í greinargerð með frv. Ég minni á það sem einnig er tæpt á hér í greinargerð og í ræðu hv. flm. að á 111. og 112. þingi var lagt fram frv. til stjórnskipunarlaga þar sem 1. flm. var hv. þm. Páll Pétursson. Þar kom til nokkurrar umræðu vorið 1989, en ekki á þinginu í fyrra vegna þess hversu seint það var lagt fram. Í því frv. var lagt til að 28. gr. stjórnarskrárinnar yrði þrengd mjög, hins vegar var ekki lagt til að hún yrði felld brott eins og hér er gert.
    Ég vil aðeins í þessu samhengi rifja upp það sem ég sagði í umræðum hér í hv. neðri deild þann 26. apríl 1989. Um frumvarpsgreinina sem varðar 28. gr. lét ég orð falla á þessa leið: ,,Frv. gerir ráð fyrir að verulega sé þrengdur réttur ríkisstjórna til slíkra athafna, eins og hv. 1. flm. rakti hér áðan. Allt er þetta til bóta en ég vil hins vegar stíga skrefið til fulls og afnema algerlega heimildina til að gefa út bráðabirgðalög.````
    Þetta var yfirlýsing núv. menntmrh. Ég spyr: Hvers virði eru yfirlýsingar manna eins og hæstv. menntmrh. þegar hann, þátttakandi í ríkisstjórn, brýtur svo gegn sínum eigin vilja og eigin skoðunum í þessu máli? Ég tel slíkar yfirlýsingar einskis virði.
    Það er rétt að menn skoði það að á sínum tíma þegar þessi ákvæði voru inni voru samgöngur erfiðar og það gat verið erfitt að kalla þingmenn saman. Það geta líka brostið á þær aðstæður hvort heldur er með ófriði eða með náttúruhamförum eða einhverju slíku að það sé fullkomlega réttlætanlegt að ríkisstjórn gefi út bráðabirgðalög 1, 2, 3, strax vegna brýnnar nauðsynjar. En að taka fyrst ákvörun um það að seinka komutíma þingsins til starfa eins og gert var í atkvæðagreiðslu á Alþingi Íslendinga fyrir jólin, vera þá með loðin svör um það hvort bráðabirgðalögum yrði breytt eða ekki og notfæra svo þessa seinkun til þess að réttlæta það að setja bráðabirgðalög eftir áramót, það eru vinnubrögð sem ekki er hægt að líða og íslensk sjómannastétt á það ekki inni að Alþingi Íslendinga eða ríkisstjórn hegði sér á þennan hátt.
    Það er talað um að það hefði verið vonlaust að fá menn til að ná sáttum í þessari deilu. Ég tel að þar sé stórum orðum aukið. Ég vil trúa því að forustumenn sjómanna og forustumenn atvinnurekenda hefðu náð sáttum hefðu þeir vitað að deilan leystist ekki nema þeir næðu samkomulagi. En ég get út af fyrir sig tekið undir það sjónarmið að stundum verður kostnaður af slíkum sáttum of mikill, þ.e. það verði að höggva á hnútinn með lagasetningu. En áður en til slíks kemur verða menn að gera sér grein fyrir því að hér liggja óafgreidd frumvörp um þessi mál, um sjávarútvegsstefnuna og Alþingi var ekkert að vanbúnaði að vinna hér hratt og vel og klára lagasetningu ef lagasetning hefði leitt til sátta.
    Það frv. sem hér er lagt fram er ekki frv. til sátta. Það frv. sem hér er lagt fram er frv. um frestun og þá væri miklu heiðarlegra að leggja til breytingar á vinnumálalöggjöfinni sem heild og setja þar inn almenn ákvæði. Það voru samþykkt stjórnsýslulög á seinasta þingi þar sem segir að þau skulu taka gildi núna 1. jan. Og hvaða regla er það sem sett er þar inn sem meginregla í stjórnsýslu á Íslandi? Það er jafnræðisreglan. Það er jafnræði þegnanna. Og hvernig fær það staðist gagnvart jafnræðisreglunni að sumir eigi að búa við það að hnútasvipa lagasetningar sé notuð til að brjóta niður verkföll eftir að verkfallið er komið í þá stöðu að það er farið að pressa verulega á þann aðila sem það var ætlað að pressa á til þess að ná honum til að semja? Þá er þessu beitt. Þetta kallar á það ef jafnræðisreglan er virt að menn mega þá ekki láta verkfall standa meira en hálfan mánuð eftirleiðis. Annars eru þeir vísvitandi að brjóta jafnræðisregluna. Þá eru þeir að halda því fram að það sé ekki hægt að láta verkfall hjá sjómönnum standa meir en í hálfan mánuð en það sé allt í lagi að láta verkfall hjá öðrum standa lengri tíma. Menn verða nefnilega að fara að gá að sér ef þeir meina eitthvað með þeirri lagasetningu sem sett var með stjórnsýslulögunum. Ég held þess vegna að menn séu komnir í þær ógöngur að annaðhvort hlýtur Alþingi Íslendinga að setjast niður við það verkefni að taka ákvörðun um það hvort vinnumálalöggjöfin sem slík sé á þann veg að henni verði að breyta, setja þar inn almenn ákvæði eða menn verða að hætta þeim leik að gera aðför að vissum stéttum öðrum fremur þegar til verkfalla kemur.
    Auðvitað er það svo að það er athyglisvert að hér hafa tveir ungir þingmenn komið í ræðustól. Annar, hv. 3. þm. Vestf., telur að hv. 1. þm. Austurl. hafi sagt að það væri e.t.v. ekkert annað að gera en að setja lög, þá sé það ekki svo mikil breyting að það hafi verið bráðabirgðalög, þar með sé hann búinn að fá syndakvittun fyrir því að geta staðið að þessu verki. Þetta minnir á ljóðlínurnar fornu:
        Annar eins maður og Oliver Lodge
        fer aldrei með neina lygi.
Það verður ekki skilið á annan veg en þann að hv. 3. þm. Vestf. líti á það sem sjálfgefinn hlut að ef Halldór Ásgrímsson gefur grænt ljós á lagasetningu að þar með sé það gulltryggt að þannig beri að standa að verki. Þetta er út af fyrir sig mikil trú, svo mikil að ég hef ekki rekist á aðra trú meiri á einstökum þingmanni og ég vil ekki verða til þess að skerða þá trú sem birtist í þessum viðhorfum.
    Hinn þingmaðurinn sem var frá Suðurnesjum og flutti hér ágæta ræðu einnig, ( Gripið fram í: Petrína.) Petrína, ég sé ekki númerið á þingmanninum hér, vakti athygli á því að það væri andstætt hennar hugmyndum að setja lög á vinnudeilur og ástæðan væri sú að ef það væri gert, þá væri verið að kalla fram ábyrgðarleysi í samskiptum Alþýðusambandsins og atvinnurekenda, kjarni málsins, og það er rétt. Það verða allt aðrir foringjar sem veljast til forustu hjá þessum samtökum ef hugsunin er sú hjá íslenskri þjóð að það eigi að vera hanaat í sjónvarpi sem standi dálítinn tíma áður en vinnudeilur verða leystar með lögum eða ef menn ætla að velja fulltrúa sem hafa það verkefni að setjast við samningaborðið og komast að niðurstöðu. Það er athyglisvert að ein elsta stofnun þessarar jarðar, kaþólska kirkjan, hefur ákveðnar leikreglur um það hvernig eigi að velja páfa. Það eru engin fyrirmæli um það að menn eigi að mæta fyrir framan sjónvarpið eða í útvarpsstöðvum og deila þar um það hart hver eigi að verða næsti páfi. Nei, þeir eru einfaldlega lokaðir inni og þeim skipað að komast að niðurstöðu og bannað að hleypa þeim út fyrr en reykurinn stígur upp frá fundastaðnum þar sem boðað er að niðurstaða sé fengin. Og það er mikið umhugsunarefni hvort sáttasemjarinn sem Íslendingar höfðu, Torfi Hjartarson, hafi ekki verið miklu kaþólskari í sinni afstöðu í þessum málum heldur en menn eru almennt í dag. ( Gripið fram í: Það er rétt.) Það er rétt, heyrist hér utan úr salnum. Hann fór fram á það við menn að þeir gerðu sér grein fyrir ábyrgð sinni, settust niður og kláruðu sitt verk og hann lét þá oft vaka, stundum meir en mönnum þótti skynsamlegt en krafan var skilyrðislaust: Það er á ykkar herðum, herrar mínir, að leysa þetta. Það ætlar enginn að taka þann bikar frá ykkur og þið skuluð klára verkið. Ég held þess vegna að sú lagasetning sem nú var farið út í að setja með þessum hætti hvetji til ábyrgari afstöðu bæði hjá atvinnurekendum og launþegum þessa lands. Hin ábyrga afstaða þarf aftur að komast í öndvegi og ég er andvígur þeim bráðabirgðalögum sem hér hafa verið sett á dagskrá og eru til umræðu.