Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 17:05:17 (3386)


[17:05]
     Guðmundur Hallvarðsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi hefði mér þótt tiltækilegt af þér að benda hv. þm. sem hér talaði síðast á að sá sem stendur nú í ræðustól heitir Guðmundur Hallvarðsson en ekki Guðmundur H. Garðarsson en það er þó ekki leiðum að líkjast.
    Í annan stað kannast ég ekki við það að hafa verið að gefa yfirlýsingar úti í bæ um það hvar ég stæði varðandi þessi lög og það sem síðasti ræðumaður sagði á ekki neitt við það sem ég hef látið hafa eftir mér úti í bæ varðandi þetta mál. Ég hef mína ákveðnu skoðun á þessu máli og hún mun koma fram þegar atkvæðagreiðslan fer fram. En mér fannst ég ekki hafa mjög rangt eftir það sem síðasti ræðumaður sagði áðan. Það mátti skilja á orðum hans að þegar þing kæmi saman og fjallað hefði verið um þetta mál í sjútvn. þá hefði hann tekið afstöðu sem hefði verið ábyrg. Jafnvel mátti skilja hann sem svo að hann væri sammála þessum lögum.