Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 17:17:21 (3389)


[17:17]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. 3. þm. Vesturl. hélt því fram að verkfall sjómanna hefði verið krafa um stefnubreytingu í fiskveiðistjórnunarmálum. Ég skildi hann svo að það hefðu verið mistök ríkisstjórnarinnar að átta sig ekki á því í lok sl. árs. En það voru einmitt atvinnurekendur sem í þessari deilu héldu þeirri skoðun fram undir lok sl. árs að kröfur sjómanna væru ólögmætar vegna þess að þær fælu í sér kröfu um að breyta gildandi löggjöf og það stangaðist á við ákvæði laganna um stéttarfélög og vinnudeilur. Þessu andmæltu sjómenn mjög eindregið. Atvinnurekendur létu sér ekki segjast og fóru með það mál fyrir félagsdóm til þess að fá úr því skorið hvor aðilinn hefði rétt fyrir sér. Félagsdómur dæmdi sjómönnum í vil og sýknaði þá af þeirri ákæru atvinnurekenda að kröfur þeirra væri krafa um grundvallarstefnubreytingu á löggjöf og beindust gegn stjórnvöldum.
    Nú kemur hv. 3. þm. Vesturl. og tekur undir þessi sjónarmið atvinnurekenda sem félagsdómur er búinn að hnekkja. Ég hlýt því að spyrja hv. þm. um það hvort það hafi verið mistök af hans hálfu að leggja málið upp með þessum hætti eða hvort það var ásetningur af hans hálfu að stilla sér á þann veg upp með sjónarmiðum atvinnurekenda sem ég hélt að væri út úr heiminum vegna þess að félagsdómur er búinn að dæma um þessa fullyrðingu. ( ÓRG: Þú viðurkenndir sjónarmið atvinnurekenda með því að setja upp þessa þriggja manna nefnd.)