Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 17:21:04 (3391)



[17:21]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég hélt ekki að það væri ágreiningur á milli hv. 3. þm. Vesturl. og sjómanna í þessu máli. Þess vegna kom mér það á óvart að hann skyldi leggja svona mikla áherslu á það sjónarmið sem atvinnurekendur tefldu fram í desembermánuði sl. að kröfur sjómanna væru um grundvallarbreytingar á lögum sem a.m.k. óheimilt er að knýja fram með verkfalli. Sjómenn sýndu fram á það með rökstuðningi fyrir félagsdómi að þessar fullyrðingar stóðust ekki. Þetta kom mér einkanlega á óvart af því að ég veit að hv. 3. þm. Vesturl. vill standa með sjómönnum í þessu máli. Þá kom mér það sannarlega á óvart að hann skyldi með þessum hætti taka svo sterklega undir þessi sjónarmið sem atvinnurekendur tefldu fram á sínum tíma en ég hélt að það hefði verið úr sögunni og hef ekki heyrt atvinnurekendur tala um eftir að félagsdómur féll. Ég tek eindregið undir þau sjónarmið hv. þm. og ég lagði mikla áherslu á í minni upphafsræðu hér að það sem máli skiptir vitaskuld í þessu er að menn horfi á málið í víðu samhengi og geri sér grein fyrir eðli þess og reyni að finna á því lausn. Ég er sannfærður um að það er vilji allra aðila að ná henni en viðfangsefnið er ekkert einfalt. Ég hlaut að vekja á því athygli hvernig hv. þm. lagði upp málstað sem atvinnurekendur hafa ekki haldið á lofti síðan félagsdómur féll og geri ráð fyrir því að þetta hafi verið mistök af hálfu hv. þm.