Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 17:24:33 (3393)

[17:24]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Hér er búið að ræða þetta mál mikið í dag og mig langaði að koma að örfáum atriðum sem varða þessa deilu. Það er enginn vafi í mínum huga að hún þróaðist á hinn versta veg og atburðarásin varð einkennileg. Ég geri mér grein fyrir því að deilan var ekki alltaf ljós og margir þættir komu þar inn í sem erfiðir voru. Hitt er enginn vafi að mestur þröskuldur í vegi þess að íslenskir sjómenn næðu saman við útvegsmenn um þetta mál eru þrír aðalleikarar í þessu leikriti ríkisstjórnarinnar. Þar eru Þórarinn V. Þórarinsson fremstur, Kristján Ragnarsson kannski feti framar og Davíð Oddsson þriðji stórleikarinn í þessari seríu. Menn sáu það allan desember að það var verið að draga deiluaðila á asnaeyrunum vegna þess að menn ætluðu að setja lög á íslenska sjómenn. Menn ætluðu ekki að leysa þessa deilu með öðrum hætti. Og kannski svo þaulhugsað að menn vildu gera það með bráðabirgðalögum meðan Alþingi Íslendinga væri enn í jólafríi.
    Þetta eru stór orð en sá sem les þessa sögu desembermánaðar og fyrstu daga janúarmánaðar hlýtur að komast að þessari niðurstöðu. Það er nefnilega engin tilviljun að verða með þessa ríkisstjórn. Hún er eins og íhaldsstjórnir um allan heim. Hún hefur atvinnuleysið til að verja sig. Atvinnuleysið er sú svipa sem fastast hvín á hrygg verkamannsins. Við skulum gera okkur grein fyrir því að aðstæður íslenskra sjómanna eru ekkert glæsilegar um þessar mundir. Þegar pláss losnar á bát sækja tugir manna um starfið. Það er öðruvísi en áður var þegar kannski einn, tveir eða þrír voru að sækja um því atvinnuleysi var svo til óþekkt í landinu.
    En þið sjáið það að frá því að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tók við þá hefur hún með lagasetningu truflað kjarasamninga og eðlilegan framgang kjaramála á Íslandi hvað eftir annað. Hún setti lög á Kjaradóm, eitt af hennar fyrstu verkum, þar sem mjög var níðst á prestum landins svo einhver stétt sé nefnd. ( Gripið fram í: Og alþingismönnum.) Og alþingismönnum, er hér gripið fram í sem vissulega er rétt. Þar voru þeir einnig. Síðan má minna á Herjólfsdeilu sem var að vísu illleysanleg deila og hafði staðið um mjög langan tíma, hafði staðið fast að tveimur mánuðum og það var Alþingi Íslendinga sem það gerði. Síðan kemur þessi deila til og þá eru það bráðabirgðalög.
    Ég skipti þessu máli nákvæmlega í tvennt. Það er í fyrsta lagi það ábyrgðarleysi sem ríkisstjórnin sýndi gagnvart sjómönnum og virðingarleysi að hvað eftir annað var af ákveðnum aðilum gefið undir fótinn með að deilan væri illleysanleg og einhverjar aðrar leiðir kæmu til greina. Ég er ekki að væna hæstv. sjútvrh. um það. Það eina sem kannski má segja um hann í þessari deilu er að það var eins og hann væri fjarri mikið af tímanum. Hann kom ekki mikið að málinu og tjáði sig þá hann gerði það af skynsemi, að mínu mati, en ég sá ekki að hann leggði svo sem mikið í púkkið til þess að lyktir næðust. Þar er því kannski hans hlutur.
    En svo er hin hliðin og það er bráðabirgðalagasetningin. Hún er nefnilega ekkert grín. Hún er háalvarlegt mál í lýðræðisríki þegar þing er starfandi. Og þó að mönnum þyki auðveldara að vera lausir við þessa alþingismenn sem eru kjörnir hér til setu og hér komi menn sem hafa talið sig baráttumenn íslenskra sjómanna eins og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson og segir: Guð hjálpi ykkur. --- Eitthvað á þá leið. Haldið þið að þetta hafi verið rætt í einhverja tvo daga? Ef menn halda að löggjafarsamkoma sé einhver grínstofnun sem eigi að vera heima þegar heit mál eru? Það er kannski á slíkum dögum sem þjóðin krefst þess og hlustar á Alþingi og spyr eftir ábyrgð manna. Ég er ekkert viss um þó einhver lagasetning hefði komið til greina í þessu máli að það hafði getað verið öðruvísi en svo að menn hefðu sett hér lög til þess að

koma í veg fyrir ákveðna þætti sem íslenskir sjómenn hafa sakað útgerðarmenn um að brjóta á sér. Þannig að það hafa ekki verið lög um að banna verkfall sjómanna fram á mitt sumar, fram á 15. júní, löngu eftir að allar sveitarstjórnarkosningar eru búnar og vonandi löngu eftir að þessi ríkisstjórn er fallin og farin frá. Það er mín heitasta ósk, hv. þm. Egill Jónsson. (Gripið fram í.) Síðan hefur það gerst sem maður sér að eru enn ein klókindin. Ég varð þess var að hópur manna sagði: Ja, í Framsfl. sko, mikilsmetinn er Halldór okkar Ásgrímsson, sögðu framsóknarmenn um allt land. Hann er kallaður til þess að ræða við Davíð Oddsson forsrh. Þetta var feikileg upplyfting fyrir framsóknarmenn að þeir héldu. ( ÓRG: Það var nú annað sem þeir voru að tala um líka.) Þeir hafa sjálfsagt rætt margt á sínum fundum en þetta héldu menn að væri einhver upplyfting en vöruðu sig ekki á því . . . ( ÓRG: Það kom ekki . . .  ) (Gripið fram í.)
    ( Forseti (GunnS) : Ég verð að biðja hv. þm. að gefa ræðumanni hljóð.)
    Menn deildu um hver ástæðan væri. Einn sagði: Diplómatískur er hæstv. forsrh. Davíð Oddsson orðinn. Hann er farinn að tala við alla aðila í þjóðfélaginu og stjórnarandstöðuna líka og slær sér upp. ( ÓRG: Ekki stjórnarandstöðuna, bara Halldór.) Já, bara Halldór fyrir hönd stjórnarandstöðunnar af því að hann stendur feti framar í hugum landsmanna heldur en hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sem væntanlegur leiðtogi þessarar þjóðar. ( ÓRG: Væntanlegur leiðtogi?) Halldór Ásgrímsson. Hver efast um það? ( ÓRG: Væntanlegur leiðtogi?) Ég sagði sem væntanlegur leiðtogi. ( ÓRG: Það er þetta væntanlegur sem við gerum athugasemd við.) Hans tími kemur. --- Enn aðrir sögðu sem svo: Þarna er Davíð rétt lýst. Aldrei getur hann séð hæstv. sjútvrh. Þorstein Pálsson í friði. Alltaf þarf hann að lítillækka hann. Og svo reiður varð náttúrlega hv. þm. Matthías Bjarnason að hann sagði: Af hverju kallar hann mig ekki, ég er fyrrverandi sjútvrh.
    En þessu trúðu menn. Ég sá strax hvað þarna var á seyði og hef sagt það á mörgum fundum. Það var tvennt sem vakti fyrir hæstv. forsrh. Það vakti fyrir honum í pólitískum klókindum, af því að hann var staðráðinn í að setja bráðabirgðalög, að nokkrum klukkustundum áður skyldi hann eiga viðræður við Halldór Ásgrímsson og það hefur komið fram í umræðum ungu drengjanna í Sjálfstfl. að það hefði eiginlega verið Halldór Ásgrímsson sem setti þessi bráðabirgðalög. ( ÓRG: Hann blessaði þau.) Það veit enginn um hvað þeim fór á milli, hv. þm., en þetta hefur komið fram í umræðunum hjá hóp af ungum þingmönnum að Halldór eiginlega bæri þarna þyngsta ábyrgð og sé meira að segja alveg sérstakur ráðgjafi um þessar mundir í sjávarútvegsmálum. Hann standi eiginlega fremri hæstv. sjútvrh. Þorsteini Pálssyni, standi nær Davíð Oddssyni, svo maður veltir því eiginlega fyrir sér hvort maður fái ekki þær skelfilegu fréttir að morgni að Halldór sé orðinn sjútvrh. og Þorsteinn Pálsson hafi verið sendur í frí. (Gripið fram í.) Ekki vil ég vita af honum inni í þessari vandræða ríkisstjórn sem nú starfar.
    En síðan er það annað. Auðvitað vita menn að í þessari umræðu hefur kvótakerfið mjög komið til tals og skyldi ekki hæstv. forsrh. hafa þótt mikilvægt að áminna Halldór Ásgrímsson í því efni og segja að hann beri ábyrgð á þessu öllu þó að við gerum okkur grein fyrir því sem höfum fylgst með kvótakerfinu að hæstv. núv. sjútvrh. á stærstan þátt í mörgum þeim vandamálum sem hafa sprottið út af því vegna þess að hann hefur ekki leitt deiluaðila saman til þess að leysa þau ágreiningsefni, þau vandamál sem fram koma, því það er ekkert eilíft undir sólinni og hvert það kerfi sem menn taka upp þarf á eilífum breytingum að halda með hverju missiri sem líður.
    Ég fordæmi þessa bráðabirgðalagasetningu. Í fyrsta lagi var hún náttúrlega ótímabær, menn höfðu nógan tíma. Það var vitlaust veður á þessum tíma og skipin lágu í höfn, útgerðirnar hefðu þolað eina viku í viðbót og ekkert gerst, fiskurinn hefði kannski stækkað aðeins í sjónum. Menn segja að það hafi verið nauðsynlegt út af loðnu o.s.frv. En það er ekki hægt að verja þessa gjörð ríkisstjórnarinnar af svo mörgum ástæðum, þannig að ég vil nota þetta tækifæri og fordæma fullkomlega þessa lagasetningu og þarf kannski ekki að hafa mína ræðu öllu lengri um þetta mál en ég held að verkalýðshreyfingin á Íslandi, hvort sem það eru sjómenn eða aðrir, verði að vakna til vitundar um það við hvers lags ofríki hin íslenska þjóð býr um þessar mundir þar sem allur réttur manna skal brotinn og keyrður niður. Það er því líkast að við búum í einræðisríki þannig að verkalýðshreyfingin þarf á öllu sínu að halda til þess að ná saman um sín mál.
    Það hafa ýmsir tekið undir þann málflutning sem ég hef viðhaft. Ég hygg að Guðjón A. Kristjánsson væri sá maður sem fyrstur kæmi inn á Alþingi fyrir Sjálfstfl. ef þeir forfölluðust Matthías Bjarnason eða Einar K. Guðfinnsson. Hann hefur haft stór orð um það hvernig gripið var inn í þessa deilu og sér það kannski í gegnum sín gleraugu með einhverjum svipuðum augum að hann gat aldrei sest að samningaborði við sína viðsemjendur vegna þess að mynd forsrh. var alltaf á veggnum á bak við Kristján Ragnarsson og Þórarinn V. Þórarinsson með lagasetningarvopnið á bak við sig.
    Þannig að ég ætla að hlífa ykkur við öllu því sem hefur verið sagt og skrifað af hinum ýmsu aðilum sem nálægt þessari deilu komu.
    En auðvitað er það margt sem maður undrast í bráðabirgðalagasetningunni hjá ríkisstjórninni. Ég hef vakið athygli á 15. júní, að allt skyldi bannað til 15. júní, og síðan er það auðvitað eins og hér hefur komið fram í 1. gr. þar sem með lögum er sjútvrh. skipað að setja nefnd. Þannig að allir hlutir varðandi þessa deilu eru einkennilegir, en í guðs bænum þvoið ekki hendur ykkar með því að reyna að kenna öðrum um. Það eru þeir sem sitja á Alþingi í dag fyrir Sjálfstfl. og Alþfl. sem bera ábyrgð á þessari bráðabirgðalagasetningu. ( StG: Samþykktu þingflokkar Sjálfstfl. og Alþfl. það ekki?) Það er nú ein spurning sem

auðvitað vakir fyrir og við höfum heyrt það hér að ýmsir hv. þm. Sjálfstfl. hafa talað og það hefur verið engin leið að skilja hver þeirra afstaða væri. Ég minni hér á hv. þm. Guðmund Hallvarðsson, ég minni á hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, ég get talið þá fleiri. ( EgJ: En formaður Framsfl.?) ( ÓÞÞ: Hvað með Egil Jónsson?) ( Gripið fram í: Já, já. Hvað með Egil? Hver er afstaðan?) Það hefur enginn hugmynd um afstöðu hv. þm. Egils Jónssonar.
    ( Forseti (GunnS) : Ég bið hv. þm. að stunda frið í þingsalnum.)
    Og ekki þætti mér ótrúlegt að með einhverjum orðum mundi hv. þm. Egill Jónsson fordæma þessar aðgerðir á fjörðum austur. ( Gripið fram í: Var hann spurður?) En hitt er kannski atriði sem menn hafa of lítið rætt hér. Hvar er þessi alþýðuflokkur verkalýðsins? ( StG: Það er rétt. Hvar er hann?) Hvar eru mennirnir sem hér hafa þanið sig úr þessum ræðustól og fordæmt af slíkri heift alla lagasetningu í gegnum tíðina á verkföll og launakjör? ( EgJ: En formaður Framsfl?) ( ÓRG: Það er allt í lagi með hann.) ( EgJ: En varaformaður?) ( ÓRG: Varaformaður Framsfl.? Það er annar maður.) Varaformaður Framsfl., hv. þm., mun vera með leyfi í þinginu í dag og það lá fyrir í gær. En ég spyr eftir þessum alþýðuflokksmönnum og kannski væri full ástæða til þess að flytja allar þær réttlætisræður sem Jóhanna Sigurðardóttir, Jón Baldvin Hannibalsson og fleiri og fleiri úr þeim flokki, ég tala ekki um úr verkalýðsarminum, hafa kyrjað yfir þessum þingsal. En það kann að vera að sá flokkur sé nú svo dauður úr öllum æðum og hugsi um það eitt að koma öllum sínum mönnum fyrir við feit embætti og stöður, að menn séu að tína út síðustu mennina þessa dagana. ( Gripið fram í: Þeir eru fæstir hér. Þú átt ekki að tala svona um menn sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér.) Hér er fullt af krötum í salnum þannig að þeir bera hönd fyrir höfuð sér. Hér er hæstv. forseti í forsetastól sem getur fengið skipti. Hér sé ég krata á einhverjum bekkjum.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa ræðu mína en lýsi því yfir að þetta er eitthvert mesta níðhögg sem gerst hefur í kjaradeilu. Ég hygg að hæstv. sjútvrh. sé það vel kunnugt að á ýmsum stöðum var þessi deila að leysast og átti kannski aðeins nokkrar klukkustundir í að samningar tækjust á milli einstakra félaga sem hefði síðan orðið leiðandi lausn í þessu máli. En hin var niðurstaðan að þessi ríkisstjórn kaus að láta íslenskan verkalýð vita af því hverjir héldu á svipunni og hverjir mundu taka á íslenskum verkalýð ef til átaka kæmi á vinnumarkaði.