Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 18:41:59 (3401)


[18:41]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Áður en ég kem að því efnisatriði sem leiddi til þess að ég bað um andsvar finnst mér rétt að vekja athygli á því að tvennt hefur mjög merkilegt komið fram í ræðu hv. þm. Árna R. Árnasonar. Fyrra atriðið eru þær tillögur sem hann lýsti hér til breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða, til þess að koma til móts við kröfur sjómanna. Þessar tillögur eru mjög svipaðar, sumar a.m.k., þeim hugmyndum og tillögum sem við höfum verið að kynna af hálfu Alþb. og sem fulltrúar sjómannasamtakanna kynntu á fundi hjá okkur og ég er alveg sammála því sem kemur fram hjá hv. þm. Árna R. Árnasyni að þessar breytingar eru í grundvallaratriðum skynsamlegar. Vandinn er hins vegar sá, hv. þm., að hér á Alþingi hefur verið meiri hluti Framsfl. og Sjálfstfl. sem hafa staðið gegn því að þessar breytingar yrðu lögleiddar. Það er þetta bandalag Framsfl. og Sjálfstfl. með núverandi fiskveiðistjórnarstefnu sem kemur í veg fyrir að þetta sé hægt. (Gripið fram í.) Ja, ég get alveg farið út í umræðu við hv. þm. Jóhannes Geir um það og get rakið fyrir honum langar viðræður mínar í tíð síðustu ríkisstjórnar við þáv. sjútvrh. og þá málamiðlun sem þá náðist, en ég ætla ekki að eyða andsvaratíma mínum hér til þess. Þetta er bara staðreynd sem við vitum

öll hér í þingsalnum.
    Í öðru lagi er það auðvitað mjög mikilvæg yfirlýsing að hér hefur komið fram að hv. þm. var ekki spurður um stuðning við bráðabirgðalögin og ég held að þar með hafi það komið í ljós að allir þeir þingmenn Sjálfstfl. sem talað hafa í þessum umræðum hafa lýst því yfir að þeir hafi ekki verið spurðir. ( Gripið fram í: Enda allir að styðja.) Látum það nú vera. En það er auðvitað mjög merkileg aðferð hjá núv. hæstv. forsrh. að setja bráðabirgðalög með þessum hætti.
    En að lokum, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) og ég bið forláts að ég þarf fáeinar sekúndur í viðbót, þá var tilefni míns andsvars það að vekja athygli hv. þm. á því að Landssamband ísl. útgerðarmanna fór í mál við sjómannasamtökin til að fá verkfallið dæmt ólöglegt. Og þegar hv. þm. er að draga ályktun um hvers vegna málin voru í strandi, þá verður hann auðvitað að víkja að þeim þætti. Dómur í því máli féll rétt fyrir gamlársdag og á gamlársdag lýsti forsrh. því yfir að hann mundi tryggja vinnufrið.