Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 18:44:48 (3402)


[18:44]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykn. var boðaður í ræðustól allsnemma í dag. Hann var ekki til staðar. Hv. 5. þm. Reykn. mætir svo hér og lætur að því liggja að mikið vanti á að menn átti sig á eðli þeirrar deilu sem staðið hafi og vekur það spurningu um hvort hv. 5. þm. Reykn. hafi hlýtt á mál manna hér í dag. Það efa ég stórlega.
    Hv. þm. flutti aftur á móti ræðu sem ég get mjög vel skilið að einhverjir hafi viljað að hann flytti ekki. Og það vekur þá spurningu hvernig ræðu hann hefði flutt hefði hann flutt hana á þeim tíma sem hann var boðaður í fyrra skiptið í ræðustól. Því það höfum við séð sem höfum hér setið að hv. þm. var, eftir að hann kom í þingsalinn, að búa sig undir að flytja hér ræðu. Allt leiðir þetta hugann að því hvort innan Sjálfstfl. fari nú fram athugun á því hvort þingmenn geti ekki fallist á það að styðja bráðabirgðalögin, jafnvel þó þeir hafi ekki verið virtir þess frekar en sandkornin, að vera spurðir álits hvort þeir styddu eða styddu ekki. Það hefur náttúrlega hent hæstv. forsrh. að gleyma því, eins og stundum gerist, að þingmenn hafa löggjafarvaldið þegar þingið situr. E.t.v. hefur hæstv. forsrh. ekki hugsað til þess að sá tími kæmi þegar hann rauk í bráðabirgðalagasetninguna.
    En undarlegt skap má það nú vera að flytja þá ræðu sem hér var flutt, en ætla samt að styðja bráðabirgðalögin.