Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 18:47:10 (3403)


[18:47]
     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var býsna merkileg ræða sem hér var flutt og að mörgu leyti hefði verið betra að hún hefði verið flutt fyrr í dag, þannig að fleiri hefðu getað hlýtt á. Það vakti athygli mína, eins og að vísu hefur komið fram hjá fleirum, sú yfirlýsing sem þingmaðurinn gaf, að hann hefði ekki verið spurður áður en ákveðið var að gefa út þessi bráðabirgðalög. Og þá fer ég að efast um hvort það sé virkilega mögulegt að ríkisstjórnin hafi ekki gengið úr skugga um hvort það væri þingmeirihluti fyrir setningu þessara laga. Ég hef spurt hæstv. ráðherra tvisvar sinnum um hvort svo væri, en ekki fengið svör við. Það væri fróðlegt að gera fyrirspurnina einu sinni enn.
    Hv. þm. vék einnig að því og sagði að það hefði verið ágreiningur um þetta í tvö ár. Þetta er auðvitað mikill áfellisdómur, þessi orð, á ríkisstjórnina, um aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar og er ekkert annað. Þingmaðurinn sagði líka að það væru engar tillögur sem komið hefðu fram frá sjómönnum, en byrjar svo að lesa upp hverjar tillögurnar voru sem ágreiningurinn var um og gerði það í ákveðnum töluliðum. Þannig að ég fæ ekki almennilega botn í það mál. En ég vil leggja áherslu á eitt sem hv. þm. sagði í hálfgerðum lítilsvirðindi tón, þegar hann talar um lénsherrana á hafinu. Aðrir kalla þá sægreifa. Það hefðu einhvern tíma þótt tíðindi, að þingmaður Suðurnesja talaði í þessari tóntegund til útgerðarmanna á Íslandi. Að þetta séu einhverjir sægreifar eða lénsherrar sem stunda sjómennsku á íslenskum fiskimiðum eða reka útgerð. Þetta er tóntegund sem ég kann ekki við að sé notuð hér og það er illa komið fyrir okkur þingmönnum þegar við þurfum að taka okkur þessi orð í munn. Og ég spyr: Hverjir eru það sem hafa búið til leikreglurnar fyrir útgerðarmenn og íslenska sjómenn til að starfa eftir? Erum það ekki við sem sitjum hér og störfum á Alþingi sem búum til leikreglurnar? Og hverjar eru breytingnar á þessum leikreglum í því frv. sem liggur á borði okkar þm., sem hv. þm. Árni Árnason hefur samþykkt að leggja hér fram í nýju frv.? Hverjar eru breytingartillögurnar?