Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 18:50:07 (3404)


[18:50]
     Ólafur Ragnar Grímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur þróast á þann veg að allir þeir þingmenn Sjálfstfl. sem talað hafa í umræðunni hafa lýst því yfir með einum eða öðrum hætti að þeir hafi ekki verið spurðir um setningu þessara bráðabirgðalaga. Það er þess vegna alveg óhjákvæmilegt að áður en þessari umræðu lýkur,

komi forsrh. eða starfandi forsrh. hér til fundarins og upplýsi þingið um það með hvaða hætti ríkisstjórnin gekk frá bráðabirgðalagasetningunni. Ég óska einnig eftir því að sá ráðherra sem talar fyrir hönd Alþfl. um þessar mundir komi einnig til umræðunnar og lýsi því yfir hvernig gengið var frá málinu fyrir hönd Alþfl.
    Það er löng hefð fyrir því hér á Alþingi, hæstv. forseti, að við 1. umr. um bráðabirgðalög sé knúið á um svör við því frá forustumönnum stjórnarflokkanna eða hæstv. forsrh. alveg skýrt með hvaða hætti var gengið frá því að bráðabirgðalögin hefðu þingmeirihluta og hver varð niðurstaða þeirrar könnunar. Það væri hættulegt fordæmi svo ekki sé meira sagt ef þingið ætlaði að láta eins og ekkert hefði gerst þegar þær upplýsingar koma fram í umræðu um bráðabirgðalög sem hér hafa komið fram og ekki er knúið á við 1. umr. málsins hvað er hér eiginlega á seyði. Ef þingið ætlar að festa í sessi fordæmi sem felur það í sér að forsrh. og forustumenn stjórnarflokka þurfi ekki á neinn hátt að hafa samráð við þingmenn sína til þess að kanna afstöðu til bráðabirgðalaga áður en þau eru sett. Ég veit ég þarf ekki að útskýra það fyrir hv. þm. eða hæstv. forseta hvað slíkt fordæmi felur í sér. Þvert á móti eru mörg fordæmi fyrir því að menn hafa gengið hér mjög hart fram til þess að knýja á um það og minni ég t.d. á umræðulotur sem hér voru af hálfu Sjálfstfl. gagnvart þáv. forsrh. Steingrími Hermannssyni og þáv. forsrh. Gunnari Thoroddsen og væri hægt að lesa ítarlegar yfirlýsingar frá forustumönnum Sjálfstfl. um þau efni. Þess vegna, virðulegi forseti, fer ég fram á það að annaðhvort verði þessari umræðu ekki lokið eða henni frestað með þeim hætti að hægt sé að kalla hér til fundarins þá ráðherra sem svarað geta þessum spurningum. Hugsanlegt að hæstv. forsrh. sé ekki á landinu en þá verði starfandi forsrh. og ráðherraoddviti Alþfl. kallaðir til fundarins.