Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 19:03:50 (3410)


[19:03]
     Ólafur Þ. Þórðarson (um fundarstjórn) :
    Herra forseti. Af stól forseta hafa þingmenn heyrt þá setningu að það sé skylda samkvæmt þingsköpum að taka þátt í atkvæðagreiðslu. Þannig hefur þingmönnum verið haldið við aga og þeir minntir á sínar skyldur. Nú vil ég biðja hæstv. forseta að fletta upp þingsköpunum og finna 53. gr. Og nú geri ég þá kröfu til forseta að hann velji ekki textann úr þingsköpunum hverju sinni, hvað hentar forseta, heldur hitt að forseti geri sér grein fyrir því að hann á að fara eftir þingsköpunum öllum. Og, með leyfi hæstv. forseta, stendur þar:
    ,,Skylt er þingmönnum að sækja alla fundi nema nauðsyn banni. Forföll skal tilkynna forseta svo fljótt sem unnt er og metur hann nauðsynina.``
    Hér þarf að lesa upp þann lista hverjir hafa forföll, hverjir hafa leyfi. Hinum á að halda til agans og láta þá mæta strax í sína stóla eða slíta fundi. Forseti verður að gera sér grein fyrir sinni ábyrgð í þessu. Það dugar enginn leikaraskapur að velja úr textanum eftir fyrirmælum ráðherra, hvað eigi að gilda í þingsköpum hverju sinni. Ég vænti þess að það liggi ljóst fyrir það sem forseti þingsins hefur sagt um lestrarkunnáttu þingmanna.