Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 20:28:48 (3419)

[20:32]
    Ólafur Ragnar Grímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Þær upplýsingar komu fram rétt fyrir kvöldmatinn að hæstv. forsrh. hefði eingöngu haft samband við tvo þingmenn Sjálfstfl. áður en þessi bráðabirgðalög voru tekin til afgreiðslu og sett. Þessir þingmenn voru hv. 1. þm. Vestf., formaður sjútvn., og formaður þingflokks Sjálfstfl., Geir Haarde. Í umræðunum hefur komið fram að allir þeir þingmenn Sjálfstfl. sem hafa talað hafa lýst því yfir að ekki hafi verið haft samband við þá þegar lögin voru sett. Þess vegna var sú ósk sett fram fyrir kvöldmat, bæði af fulltrúum Alþb. og Framsfl., að til þess að þessi umræða gæti haldið áfram þá mættu til fundarins í fyrsta lagi forsrh. eða starfandi forsrh. og í öðru lagi þeir þingmenn tveir sem tilgreint hefur verið að séu þeir sem forsrh. leitaði til úr þingflokki Sjálfstfl., 1. þm. Vestf., formaður sjútvn., Matthías Bjarnason, og Geir Haarde, formaður þingflokks Sjálfstfl. Jafnframt hefur hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson lýst því yfir að ráðherrar Alþb. hafi haft þann hátt á að hafa rætt við alla þingmenn Alþfl. áður en gengið var til forseta. Hæstv. sjútvrh. lýsir því síðan yfir að forsrh. hafi tilkynnt forseta lýðveldisins að hann teldi að það væri þingmeirihluti á bak við þessi bráðabirgðalög.
    Nú veit ég að ég þarf ekki að minna hæstv. forseta á það að þegar bráðabirgðalög hafa komið til umræðu áður og það hefur verið óvíst með hvaða hætti forsrh. stóð að setningu laganna, hvað hann sagði við forseta lýðveldisins og hvort það reyndist rétt, þá hefur ávallt verið orðið við þeirri ósk að áður en umræðan héldi áfram kæmi forsrh. eða starfandi forsrh. til þingfundar og greindi þinginu frá því hvað fór á milli forsrh. og forseta lýðveldisins og hvaða rök forsrh. hafði fyrir því að meiri hluti væri á bak við bráðabirgðalögin.
    Þess vegna ítreka ég, virðulegi forseti, þá ósk sem við settum fram, fulltrúar Alþb. og Framsfl. og ég reikna með að sé einnig studd af fulltrúum Kvennalista þó að það hafi ekki komið fram fyrir kvöldmat, að til þess að þessi umræða haldi áfram þá mæti þessir þrír fulltrúar Sjálfstfl. til fundar og greini þinginu frá því sem hér hefur verið rætt. Ég veit að ég þarf ekki að nefna þá aftur. Enginn þeirra er í þingsalnum nú, virðulegi forseti, þannig að ég ítreka ósk okkar um það að til þess að umræðan geti haldið áfram verði þessir þrír þingmenn og ráðherrar kvaddir til fundar.