Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 20:34:51 (3421)


[20:34]
     Ólafur Ragnar Grímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Það er alveg sjálfsagt að staðfesta það að þau ummæli sem hér voru höfð voru á þann veg sem hæstv. sjútvrh. fór með, að forsrh. hefði tjáð forseta lýðveldisins að hann hefði ástæðu til að ætla að það væri meiri hluti á bak við frv. Það er alveg rétt. Hafi ég orðað þetta eitthvað öðruvísi, þá er það ekki vegna þess að ég vildi breyta merkingunni. Mér er þetta alveg fullkomlega ljóst. Það var þess vegna sem ég óskaði eftir því að þeir tveir þingmenn sem talað var við úr Sjálfstfl. kæmu til fundarins. Því það er staðfest hér og hefur ekki verið dregið til baka að forsrh. talaði bara við tvo þingmenn úr Sjálfstfl., hv. þm. Geir Haarde og hv. þm. Matthías Bjarnason. (GHH: Hver segir þetta?) Nú hváir hv. þm. Geir Haarde þegar ég segi þetta og er þá rétt að hann fái að heyra það að hæstv. sjútvrh. lýsti því yfir aðspurður fyrir kvöldmat að forsrh. hefði eingöngu rætt við tvo þingmenn úr Sjálfstfl. Ef hv. þm. Geir Haarde er fyrst að heyra það nú í salnum . . .  ( GHH: Hvað með það?) Hvað með það? Ja, það er von að málið sé orðið flókið þegar hv. þm. Geir Haarde segir: Hvað með það? ( ÓÞÞ: Var ekki talað við hann einu sinni?) Vegna þess að málið snýst um það á grundvelli hvaða upplýsinga lýsti hæstv. forsrh. því yfir við forseta lýðveldisins að hann hefði ástæðu til að ætla að frv. hefði meiri hluta. Nú er það komið í ljós að allir þeir þingmenn Sjálfstfl. sem talað hafa við umræðuna hafa lýst því yfir alveg skýrt að ekki var talað við þá. Það hefur enginn þingmaður Sjálfstfl. talað í umræðunni og lýst því yfir að við hann hafi verið talað um þessi bráðabirgðalög.
    Þess vegna er ósköp eðlilegt að menn spyrji bæði úr sæti sínu og úr ræðustól: Hvað var um hina 26 sem ekki hafa verið tilgreindir í umræðunni? ( GHH: Við erum 26 í allt.) 24, fyrirgefðu, hv. þm., 24. Já, og dugir samt.
    Hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson hefur lýst því yfir að talað hafi verið við alla þingmenn Alþfl. hvern og einn og ráðherrar Alþfl. hafi gert það. Þess vegna óska ég eftir því að hv. þm. Geir Haarde upplýsi það hér við hvaða þingmenn Sjálfstfl. hann talaði svo að það komi alveg skýrt fram hvort farið var með sannleikann af hálfu forsrh. í samtali við forseta lýðveldisins. Og áður en þessi umræða getur haldið áfram þá verði þetta mál hreinsað í umræðunni.