Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 20:39:57 (3423)


[20:39]
     Svavar Gestsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég ætlaði einmitt að víkja sérstaklega orðum mínum að forseta í framhaldi af ummælum sem hún lét falla í þinghléinu um að það mætti kannski einu gilda hvort lög væru afgreidd á Alþingi eða sett sem bráðabirgðalög og haft var eftir henni í dagblaðinu Tímanum, en hæstv. forseti hefur síðan borið af sér að mér skilst af forsetastóli núna síðustu daga. Þetta sýnir í hve vandasamri stöðu hæstv. forseti er í. En í erfiðari stöðu er þó forseti Íslands andspænis þeim tíðindum sem hér hafa verið sögð.
    Það liggur fyrir og fyrir því er áratuga reynsla að haldnir hafa verið formlegir eða óformlegir fundir í þingflokkum stjórnarflokka þegar bráðabirgðalög hafa verið afgreidd. Í þessu sambandi og máli mínu til stuðnings bendi ég á ótal þingræður formanns Sjálfstfl. á árinu 1982, Geirs Hallgrímssonar, þar sem hann gagnrýndi mjög harðlega þáv. ríkisstjórn fyrir það að hennar þingmeirihluti í tilteknu máli væri e.t.v. tæpur. Það lá alveg fyrir að sú stjórn hafði meiri hluta en hún hafði kannað það til þrautar. Núverandi stjórn umgengst Alþingi, lagasetningarvaldið og forseta Íslands með þvílíku virðingarleysi að engin dæmi eru um slíkt og leyfir sér að setja bráðabirgðalög, að nota bráðabirgðalöggjafann, án þess að það liggi fyrir hver er afstaðan á Alþingi Íslendinga hjá stjórnarflokkunum.
    Það er algerlega dæmalaust að Alþingi sé sýnd slík lítilsvirðing og algerlega dæmalaust að þingmenn stjórnarflokka hafi látið bjóða sér aðra eins lítilsvirðingu og mér finnst að þingmenn Sjálfstfl. hafi gert í þessu máli ef það er rétt hjá hv. þm. Geir Haarde, sem ég dreg í efa, að þeir muni þrátt fyrir þessar trakteringar skila sér eins og sauðfé í dilk þegar loksins verða greidd atkvæði um þetta mál í þessari virðulegu stofnun. Lítið leggst þá fyrir suma kappana sem oft eru orðstórir úr þessum ræðustól, að ég tali nú ekki um þegar þeir komast í tæri við fjölmiðla utan við fundartíma Alþingis Íslendinga.
    Það er greinilegt að þegar hæstv. forsrh. kynnti málið fyrir forseta Íslands þá vissi forsrh. ekki hvort það væri þingmeirihluti. Hæstv. forsrh. sagði forseta Íslands ekki satt. Það er sú alvarlega staðreynd sem liggur hér fyrir og hefur verið afhjúpuð með eftirminnilegum hætti. Það er greinilegt að ráðherra Sjálfstfl. og þingflokksforusta hafi ekki unnið verk sín með þeim hætti sem eðlilegt er að krefjast og ég skora á þá að fletta upp í ummælum forustumanna Sjálfstfl. frá árinu 1982 til að gera sér grein fyrir því hvaða stefnu menn höfðu þar áður en hin nýja valdafreka forusta Sjálfstfl. kom til valda á síðustu missirum.