Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 20:52:26 (3429)


[20:52]
     Stefán Guðmundsson :
    Hæstv. forseti. Ég er vissulega kominn til þess. Ég vil aðeins svara hæstv. fjmrh. og sitjandi forsrh. því að það er rétt að ég hef fyrr gert athugasemdir þegar svo hefur borið við sem nú. Ég gerði það í gær. Þá spurði ég hæstv. sjútvrh. og hæstv. forsrh. ekki einu sinni heldur tvisvar að því hvort það hefði

verið gengið úr skugga um það að þingmeirihluti væri fyrir setningu bráðabirgðalaga. Hæstv. forsrh. svaraði því til að hann hefði rökstuddan grun um að ætla að svo væri. Ég held ég fari nokkurn veginn orðrétt með það sem hann sagði.
    Ég verð að segja það, virðulegur fjmrh., að þegar svo ber undir að ríkisstjórnir sjá ástæðu til að grípa til þess óyndisúrræðis að setja bráðabirgðalög eins og nú var gert, þeirra gerræðisvinnubragða, þá finnst mér það ekki til of mikils mælst að ríkisstjórn sé búin að athuga það og geri forseta lýðveldisins grein fyrir því áður en hann skrifar upp á slíkt hvort þingmeirihluti sé fyrir þeirri gerð sem farið er fram á við forsetann að skrifa undir. Mér finnst það lágmark háttvísi hverrar ríkisstjórnar sem er að ganga frá slíku gagnvart forseta lýðveldisins. Það er svo allt annað mál hver niðurstaða atkvæðagreiðslunnar verður endanlega eftir að búið er að meðhöndla þingmenn Sjálfstfl. og Alþfl.
    ( Forseti (SalÞ) : Ég vil biðja hv. þm. að halda sig við að bera af sér sakir.)
    Ég er að ljúka máli mínu. Hitt er aðalmálið hvort þingmeirihluti er fyrir málinu þegar forseti lýðveldisins er beðinn að skrifa undir. Það er kjarni málsins. Auðvitað verða þeir þingmenn Sjálfstfl. knésettir í þessu máli sem hafa verið með eitthvern uppsteyt. Það er engin spurning.