Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 20:57:49 (3433)


[20:57]
     Geir H. Haarde (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Það er óþarfi að vera að endurtaka það sem þegar er komið fram. Forsrh. hafði að sjálfsögðu samráð við mig sem formann þingflokksins til þess að leita álits míns á því hvort ég teldi að það væri stuðningur við þetta mál. Ég taldi að svo væri og sagði honum það. Ég get ekki farið með hans samtöl við aðra hvorki forseta Íslands né aðra þingmenn og það er auðvitað fráleitt að halda því fram og það hafi komið fram í minni ræðu að það hafi verið skrökvað að forseta Íslands. Það er slíkur útúrsnúningur að það er jafnvel hv. 8. þm. Reykn., Ólafi Ragnari Grímssyni, til minnkunnar að halda slíku fram. ( ÓRG: Við hvaða þingmenn Sjálfstfl. talaði hv. þm.?) Það kemur hv. þm. ekki við eins og ég hef þegar sagt. ( ÓRG: Hann talaði ekki við neinn. Það er alveg ljóst.) Það kemur hv. þm. ekki við. Ég tjáði honum það í minni síðustu ræðu og þingheimi að samtöl mín við þingmenn Sjálfstfl. sem eru tíð og mörg og um ýmsa hluti koma þessum þingmanni ekki við ( ÓRG: Ég var bara að spyrja um tölu.) og ég mun ekki greina honum frá því hvorki nú né síðar við hverja ég tala og um hvað í þingflokki sjálfstæðismanna. Það kemur þér ekki við, hv. þm. Ég leyfi mér að taka þannig til orða.
    Ég vil síðan út af því sem þingmaðurinn sagði um bráðabirgðalögin frá sumrinu 1992 eingöngu

segja það að hann snýr líka út úr ummælum forsrh. varðandi það efni ( ÓRG: Við skulum bara ná í hann.) vegna þess að ummæli forsrh. --- ef maður gæti nú fengið frið hér, forseti, til að ljúka máli sínu --- voru um hina pólitísku hlið þess máls. ( ÓRG: Hver segir það?) Það hefðu verið pólitísk mistök hjá honum að beita sér fyrir setningu bráðabirgðalaga en ekki að það hafi verið formlega rangt eins og hv. þm. er að halda fram og snúa út úr að sjálfsögðu gegn betri vitund. Auðvitað lék enginn vafi á því þá frekar en nú að ríkisstjórnin hafði vald til þess að setja bráðabirgðalög eins og hún gerði og Alþingi síðan staðfesti. ( ÓRG: Í hverju voru þá pólitísku mistökin fólgin?) Það var ekki um það atriði sem forsrh. var að tala.
    ( Forseti (SalÞ) : Forseti biður hv. 8. þm. Reykn. að leyfa hv. 8. þm. Reykv. að ljúka máli sínu og vera ekki með frammíköll.) ( ÓRG: Hann er með efnisatriði.)
    Það kemur úr hörðustu átt þegar menn eru að tala um að það sé talað um efnisatriði undir liðnum ,,fundarstjórn forseta`` því enginn gengur eins langt í því og hv. þm. ( ÓRG: Það er bara rangt.) Það er ekki rangt eins og Ólafur Þ. Þórðarson staðfestir með hlátri sínum úr salnum. ( ÓÞÞ: Nú verð ég að bera af mér sakir.) Vertu velkominn.
    Þetta er auðvitað kjarni málsins, virðulegi forseti, og hefur ekkert með að gera þá deilu um formsatriði sem hér fer fram og þá deilu hvort rétt sé að málum staðið við útgáfu bráðabirgðalaga. Forsrh. lýsti því yfir eftir á að hann teldi að það hefði verið pólitískt rangt, röng ákvörðun að setja bráðabirgðalög. En það hefur ekkert með það að gera að það hafi ekki verið fullkomlega eðlilega að þeim málum staðið út frá hinni formlegu og lagalegu hlið málsins.
    Menn geta auðvitað haft mismunandi skoðanir á því hvort bráðabirgðalög séu sínu eðlilegur hlutur. Um það hefur verið margdeilt. En þau eru staðreynd. Það er ekki hægt að tala um þau sem gerræði eins og fram kom í ræðu eins þingmanns áðan. Þau eru staðreynd í okkar stjórnkerfi og það hefur ekki verið farið á svig við þær reglur sem um þau gilda í þessu tilfelli.