Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 21:41:58 (3445)


[21:41]
     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er rétt að upplýsa hv. þm. Jón Kristjánsson um það aftur að 23. apríl árið 1986 lá fyrir full vitneskja um það að 29. og 30. apríl, 5., 6. og 7. maí yrði sjómannaverkfall í landinu. Hann stóð samt að því, ásamt öðrum hv. þm. Framsfl. sem studdu þáverandi ríkisstjórn, að senda þingið heim, jafnvel vitandi um það, eins og raunin varð, að verkfallið yrði stöðvað með bráðabirgðalögum. Vegna þess að það verkfall var þó öðruvísi en það sem við stóðum frammi fyrir núna, að það var ekki einu sinni samfellt. 29. og 30. apríl, 5., 6. og 7. maí, röð af skyndiverkföllum. Og samkvæmt því sem hér stendur var ekki verkfall í gangi 9. maí þegar bráðabirgðalögin voru gefin út. Þannig að ef hv. þm. hefur verið þeirrar skoðunar 1986 ásamt öðrum hv. þm. Framsfl., að það bæri brýna nauðsyn til þess að fjalla um jafnbrýn mál í þinginu ef aðstæður frekast leyfðu, þá var aldeilis ástæða til þess þá. En að senda þingið heim á meðan svo váleg tíðindi biðu að verkfall var að ganga í garð, það er alvarlegt.