Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 21:45:00 (3447)


[21:45]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Það er fyrst til að taka að það er rétt að Framsfl. hefur komið að þeirri lagasetningu að setja lög um stjórnun fiskveiða. Við höfum aldrei haft meiri hluta á Alþingi Íslendinga og ávallt orðið að njóta aðstoðar annarra ef við höfum þurft að koma lögum í gegnum þingið. Þessi lög hafa verið mikið gagnrýnd og það eitt að núverandi ríkisstjórn er búin að sitja í tvö ár og Alþfl. hefur boðað breytingar á þessum lögum, þá finnst okkur dálítið skrýtið að það skuli vera sett bráðabirgðalög til þess að framlengja stefnu Halldórs Ásgrímssonar. Að svo brýnt sé að framlengja þá stefnu. Það vekur undrun. Við skiljum ekki að hin brýna nauðsyn hafi þá verið til staðar, ef þetta hefur allt verið vitlaust, eins og talað hefur verið um. En það er aldrei í þeirri stefnu samþykkt að kvótabrask skyldi tekið upp í þeirri mynd sem hefur viðgengið að undanförnu.
    En það alvarlegasta í þessum samanburði sem hér hefur verið gerður og það sem ég hreinlega skil ekki, er hvers vegna hv. 5. þm. Austurl. fer til 1986 og ræðir um bráðabirgðalagaútgáfu. Nú er það svo að ég tel mig vera sjálfum mér samkvæmur í dag þó að ég keyri á hægri kanti í umferðinni, en skal játa það að fyrst eftir að ég tók próf keyrði ég alltaf á vinstri kanti. Og þetta er náttúrlega gífurleg breyting. En hver skyldi ástæðan vera? Ég er einfaldlega að fara eftir þeim lögum sem eru í gildi núna, sem eru öðruvísi en voru í gildi þegar ég tók prófið. Og ég vona að hæstv. forseti geri sér grein fyrir því að það voru sett ný ákvæði í stjórnarskrá Íslands 31. maí 1991 og eftir þeim ber að starfa í dag en ekki því sem gilti 1986.