Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 22:22:51 (3453)


[22:22]
     Ólafur Ragnar Grímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson vakti athygli á því að það væri nauðsynlegt að hæstv. forsrh. Davíð Oddsson gæti talað í þessari umræðu. Nú er það þannig að þótt fjmrh. sé starfandi forsrh. er það ljóst að í þessu máli á hann engan hlut. Hæstv. fjmrh. var ekki á landinu. Hann var í fríi þegar þessi bráðabirgðalög voru sett og það er þess vegna algerlega hæstv. forsrh. sem hefur átt hér hlut að máli.
    Í öðru lagi vek ég athygli á því að þegar hæstv. forsrh. fjallaði um bráðabirgðalögin á fyrsta degi þingsins þá lýsti hann því yfir að núv. ríkisstjórn hefði fylgt anda þeirra breytinga sem gerðar voru á stjórnarskránni og vikið hefur verið að í umræðunum. Nú er það hins vegar komið fram að Sjálfstfl. hefur beitt aðferð sem enginn annar þingflokkur hefur beitt við setningu bráðabirgðalaga.
    ( Forseti (GunnS): Forseti verður að trufla ræðu hv. 8. þm. Reykn. og benda honum á að samkvæmt þingsköpum hefur hann heimild til að tala í þrjár mínútur um fundarstjórn. Forseti metur það svo að hingað til hafi ræðan ekki fjallað um fundarstjórn heldur aðra hluti og bið ég hv. 8. þm. Reykn. um að koma sér að efni málsins strax.)
    Hefði hæstv. forseti ekki eytt tíma þingsins með því að rísa á fætur og trufla ræðu mína þá væri ég búinn að því. Ég tel hins vegar nauðsynlegt að rökstyðja ósk mína um fundarstjórn forseta. Ég vænti þess varla að hæstv. forseti vilji fá órökstuddar óskir frá þingmönnum um breytta fundarstjórn. Þess vegna er nauðsynlegt að við getum rökstutt mál okkar á þeim stutta tíma og mjög óheppilegt forseti sé að grípa inn í þann tíma og trufla hann.
    Rökstuðningur minn vék að því, virðulegi forseti, að fara fram á að forseti ákveði á næstunni að þessari umræðu verði frestað þannig að hægt verði að ræða við hæstv. forsrh. Davíð Oddsson um þau mál sem hér hafa komið upp. Það er í raun og veru ekki hægt að ljúka 1. umr. um þessi bráðabirgðalög að hæstv. forsrh. fjarstöddum.
    Ég vona að forsetinn skilji mikilvægi málsins. Við erum hér að ræða um fordæmi varðandi setningu bráðabirgðalaga. Við eigum ýmsir hér bara einn ræðurétt eftir. Það á t.d. við um mig. Ég ætlaði að fjalla í ræðu minni nánast eingöngu um framgöngu hæstv. forsrh. í þessu máli. Ég veit að aðrir þingmenn hafa áhuga á að tala um það og við höfum ekki áhuga á að gera það að hæstv. forsrh. fjarstöddum. Hv. sjútvn., ef ég má ljúka máli mínu, virðulegi forseti, getur unnið að málinu engu að síður. Ég geri enga athugasemd við það. En ég fer fram á það í framhaldi af ræðu hv. þm. Svavars Gestssonar og með tilliti til þeirra röksemda sem ég hef sett fram að hæstv. forseti hugleiði það á næstunni að fresta umræðunni þar til hæstv. forsrh. getur komið til hennar.