Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 22:42:37 (3468)


[22:42]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Hér höfum við rætt lengi dags um þetta frv. og aðallega um bráðabirgðalagaréttinn. Til andsvara fyrir hönd ríkisstjórnarinnar sem setur þau bráðabirgðalög sem liggja fyrir hefur í raun og veru aðeins verið einn ráðherra, hæstv. sjútvrh. Það liggur þó fyrir að frumkvæði að þessari lagasetningu hefur verið hjá hæstv. forsrh. Hann hefur ekki verið viðstaddur í dag til að taka þátt í umræðunni og ekki getað svarað því sem til hans hefur verið beint.
    Það er líka rétt að leggja áherslu á að í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins sunnudaginn 16. jan. var

vitnað í ummæli hæstv. núv. sjútvrh. sem hann lét falla árið 1990. Ég hygg að hann hafi ekki mikið skipt um skoðun en þar segir hann þegar verið er að ræða um setningu bráðabirgðalaga á BHMR, með leyfi forseta:
    ,,Öll þessi atburðarás hefur leitt til þess að mjög margir telja að ríkisstjórnin hafi vegið svo nærri undirstöðum stjórnskipunar að brýna nauðsyn beri til að afnema rétt til útgáfu bráðabirgðalaga.`` Þetta segir Þorsteinn Pálsson, þáv. formaður Sjálfstfl.
    ,,Ég er þeirrar skoðunar að þetta beri að gera enda vandséð þau tilvik í nútímaþjóðfélagi að ekki megi kalla löggjafarsamkomuna til fundar þegar mikið ber við.``
    Nú hefur það fallið í hlut þessa sama manns að verja þessa bráðabirgðalagasetningu. Í ljósi þess hvernig umræður hafa farið fram í dag vil ég óska eftir því við hæstv. forseta að þessari umræðu verði frestað þar til fleiri ráðherrar og þá sérstaklega hæstv. forsrh. geta tekið þátt í því að verja þessa lagasetningu ríkisstjórnarinnar sem við höfum haft til umræðu og það komi ekki einungis í hlut hæstv. sjútvrh. að svara fyrir þetta.