[14:32]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Það er mjög alvarlegt mál hvernig hefur verið staðið að stjórn þingsins í sambandi við þessi bráðabirgðalög. Í gærkvöldi var fundi lokið um þetta mál í algjöru ósætti við þingmenn stjórnarandstöðunnar sem voru hér við umræðuna. Forsrh. var ekki við þessa umræðu og ekki staðgengill hans heldur. Það var ákvörðun forseta á sínum tíma að hafa þessa umræðu. Beiðni stjórnarandstöðunnar gekk út á það að umræðan færi fram á undan umræðunni um sjávarútvegsmál, en það var engin krafa um að hún færi fram í gær. Ég tel að það hefði verið affararsælla að menn hefðu gefið sér betri tíma og séð til þess að hér væru þeir viðstaddir umræðuna sem áttu að svara fyrir gerðir ríkisstjórnarinnar í þessu máli, sem eru út af fyrir sig alveg forkastanlegar.
    Það hefur komið fram við umræðuna að ekki hefur verið gengið úr skugga um að það væri fullur stuðningur við þessi bráðabirgðalög í röðum stjórnarsinna og þar hafa sjálfstæðismenn komið með yfirlýsingar hver á fætur öðrum. Þó þeir muni kannski styðja þessi bráðabirgðalög hafa þeir ekki verið spurðir um og ekki lofað þeim stuðningi áður en þau voru sett. Þannig er auðvitað gjörsamlega óviðundandi að stjórnvöld í þessu landi hagi sér. Forsrh. gaf þetta í raun og veru til kynna í sjónvarpsviðtali eftir að bráðabirgðalögin voru sett því hann tók þannig til orða, það var mjög tvírætt orðalag sem hann viðhafði um það samband sem hefði verið haft við sjálfstæðismenn í þingflokki hans um þessi mál. Og ég verð að segja eins og er að ég botna nú ekki í þessum óskaplega asa sem er allt í einu á þessu máli. Svo gerist það í morgun á fundi sjútvn. að hv. 1. þm. Vestf., sem þar er formaður, ætlaði að taka þetta mál og afgreiða það þar, þ.e. þann hluta þess sem þurfti að afgreiða í sambandi við viðtöl við fulltrúa sjómanna sem þarna voru staddir. Ég held að það væri gott að það kæmu á því skýringar hvers vegna í ósköpunum mönnum liggur svona á að klára þetta mál.