[14:34]

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að ítreka spurningu sem ég bar fram í gærkvöldi um það hvað líði framlagningu frv. frá ríkisstjórninni um breytingu á búvörulögum. Bæði hæstv. landbrh. og hæstv. forsrh. lýstu því yfir í utandagskrárumræðu á mánudaginn að frv. yrði lagt fram daginn eftir, þ.e. í gær. Það bólar ekkert á frv. og mér sýnist að öll þessi málsmeðferð staðfesti það sem ég sagði í utandagskrárumræðunni á mánudaginn, að málið er það að hér er um að ræða pólitískt úrlausnarefni sem ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir ráða ekki við að leysa. Það endurspeglast í þeim fálmkenndu vinnubrögðum sem eru við alla lagasetningu sem víkur að málinu. Það er í raun alltaf verið að lögfesta pólitískar málamiðlanir, en nú eru þessi frumvarpsdrög alveg týnd og við vitum ekkert. Það er farið að vinna að þessu í landbn. sem við stjórnarandstaðan neitum að sjálfsögðu. Og við vitum ekkert hvar málið er statt. Málið er það að stjórnarsinnarnir, ráðherrarnir, segja eitt hér í ræðustól á Alþingi og fara svo á ríkisstjórnarfundi og framkvæma annað. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar sögðu hér á mánudaginn að þeir væru tilbúnir til að vinna eftir þeirri línu að virða það innflutningsbann sem verið hefði. Við ættum að vinna að því að innflutningurinn færi eftir þeim leiðum sem þeir milliríkjasamningar sem við erum aðilar að leyfa. Um þetta hygg ég að sé alger sátt hér á þinginu. Og það er sáraeinfalt að ganga þannig frá því í lögum að hægt sé að vinna á þessum nótum. Málið er bara það að ríkisstjórnin virðist ekki koma sér saman um þetta frekar en nokkuð annað. Og ég ítreka það sem ég sagði hér í upphafi máls míns, að það voru yfirlýsingar tveggja ráðherra um að það væri sátt um þetta mál í ríkisstjórninni og frv. kæmi fram í gær. Það bólar ekki á frv. enn í upphafi fundar í dag og ég hlýt að spyrja starfandi forsrh.:
    ( Forseti (GunnS) : Ég verð að benda hv. þm. á að ræðutíma hans er lokið.)
    Hvað líður þessu máli?