[14:41]
     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Það er með ólíkindum hvað menn geta haldið áfram að teygja lopann hér um þessi bráðabirgðalög og tilurð þeirra. Um það var ítarlega rætt í gærkvöldi. Það er með öllu tilhæfulaust sem hv. síðasti ræðumaður, Guðni Ágústsson, hélt fram, að það væri sannað eða leitt í ljós að forsrh. hefði skrökvað að forseta Íslands. Þetta er algjörlega tilhæfulaus áburður og auðvitað gjörsamlega ósannur. Ég veit ekki hvað þeim fór í milli, forseta Íslands og forsrh., en ég tel mig geta fullyrt að þar var engu skrökvað. Og ef hv. þm. getur fært sönnur á annað þá skora ég á hann að koma hér upp og gera það. Ef hann hefur staðfestingu á því að það hafi verið skrökvað að forseta Íslands þá á hann að koma hér upp og færa sönnur á það. ( Gripið fram í: Það var staðfest hér í gær.) Það hefur ekkert verið staðfest í því efni. ( Gripið fram í: Að sjálfsögðu.) Mér er ekki kunnugt um hvað þessu fólki fór í milli og ég efast um að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hafi neinar sérstakar upplýsingar um það. ( ÓRG: Sjútvrh.) Þetta eru getsakir og þetta eru ósannindi af ykkar hálfu. ( ÓRG: Sjútvrh. sagði það.) Þetta eru ósannindi af ykkar hálfu,

hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson. Hitt er rétt að það var ekki haft samband við alla þingmenn Sjálfstf. Það hefur komið fram  . . .  ( ÓRG: Hvaða tvo?) Þeir voru reyndar ekki tveir, þeir voru fleiri. Það kemur ekki málinu við ( ÓRG: Hvað margir?) vegna þess að það er engin skylda, eins og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson útskýrði mjög skilmerkilega hér í gærkvöldi, að hafa samband við alla þingmenn stjórnarliðsins. ( Gripið fram í: Það er hefð fyrir því.) Það hefur hins vegar oft verið gert og ef einstakir þingmenn Sjálfstfl. eru óánægðir með það þá er það auðvitað innra mál í okkar flokki. Það var talað við formann þingflokksins. Ég tók á því ábyrgð fyrir mína hönd gagnvart þingflokknum og það er auðvitað okkar mál, í okkar þingflokki, hvernig við tökum á slíku. En það kemur ekkert því við hvort eðlilega eða formlega rétt var staðið að framlagningu og tilurð þessara bráðabirgðalaga. Þetta er algerlega nauðsynlegt að komi hér fram vegna þeirra getsaka og þess ósæmilega áburðar sem borinn hefur verið á forsrh. landsins í þessu máli.
    ( Forseti (GunnS) : Forseti verður að biðja um að hv. þm. ástundi frið hér í fundarsal.)