[14:49]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. og hv. þm. Geir Haarde, sem báðir beittu sér fyrir því í gær að umræður gætu ekki haldið áfram með eðlilegum hætti um bráðabirgðalögin, þannig að hæstv. forsrh. væri viðstaddur og gæti sjálfur talað milliliðalaust í þessu máli, kusu í vörn sinni fyrir óverjanlegan málstað að fara að bera ásakanir á mig og nokkra aðra þingmenn sem hér voru í gærkvöldi. Það var m.a. borið á mig að ég hefði farið með rangt mál. Það er staðreynd, sem þessir tveir talsmenn Sjálfstfl. hér í dag geta ekki breytt, að hæstv. sjútvrh., Þorsteinn Pálsson, lýsti því alveg skýrt í þingsalnum í gær og um það vitna þingtíðindi að hæstv. forsrh., Davíð Oddsson, hefði fullvissað forseta lýðveldisins um það að hann hefði ástæðu til að ætla að það væri meiri hluti fyrir bráðabirgðalögunum. ( Landbrh.: Þetta er nú að bera á sakir frekar en að bera af sér sakir.) Hæstv. landbrh. hefur nú um nóg að hugsa, um frv. sem er ekki enn þá komið fram og ætti ekki að vera að blanda sér inn í þetta mál sem hann veit ekkert um. --- Síðan hefði það komið fram að hæstv. forsrh. hefði talað við tvo þingmenn Sjálfstfl. Jafnframt var það upplýst hér af hálfu Alþfl., og það var talað við alla þingmenn Alþfl., og af hálfu Framsfl. og Alþb., að sú hefð hefur verið ríkjandi við setningu bráðabirgðalaga, að gengið er úr skugga um það með viðtölum við alla þingmenn sem næst í hvort þeir styðja bráðabirgðalögin eða ekki. Þess vegna er auðvitað alveg nauðsynlegt að fá hæstv. forsrh. hér til umræðunnar beint, því það þarf ekki að útskýra það fyrir þingheimi hvers konar hættur felast í bráðabirgðalagavaldinu sem farið er að beita á þann hátt að forsrh. talar eingöngu við tvo af í kringum 20 þingmönnum Sjálfstfl. sem sitja fyrir utan ríkisstjórnina og ekki hefur verið upplýst að hefur verið talað við. Menn geta rétt gert sér í hugarlund hvernig hægt er að beita bráðabirgðalagavaldi t.d. í maí, með því að tala bara við tvo þingmenn úr stærsta stjórnarflokknum og láta síðan lögin renna efnislega út í september Þess vegna er hér auðvitað af hálfu Davíðs Oddssonar verið að fara inn á nýjar brautir sem eru ótrúlegar og hann á í raun og veru aðeins tvo kosti í þessu máli, hæstv. forsrh. Annaðhvort að sanna það hér í þingsalnum að hann hafi talað við nægilega marga þingmenn stjórnarliðsins til þess að vita það að meiri hluti var fyrir bráðabirgðalögunum eða biðja þingið afsökunar á þessum vinnubrögðum. Hann hefur áður lýst því yfir að honum hafi orðið á mistök við setningu bráðabirgðalaga og hann ætti í þessu máli líka að lýsa því.
    Og fyrr en hæstv. forsrh. hefur tækifæri til þess að standa hér sjálfur fyrir sínu máli, sem við vildum að hann fengi en hv. þm. Geir Haarde vildi ekki, að hæstv. forsrh. fengi að standa hér fyrir sínu máli strax og þetta mál var við 1. umr., þá ættu þessir ráðherrar og þingmenn Sjálfstfl. ekki að vera að bera á okkur að við förum með rangt mál.