Stöðvun verkfalls fiskimanna

77. fundur
Miðvikudaginn 26. janúar 1994, kl. 15:08:04 (3502)


[15:08]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Hér er að gerast sá einstaki atburður að bráðabirgðalög, sem upplýst hefur verið að hafa verið sett með afar vafasömum og óvenjulegum hætti, eiga núna að fara til nefndar að lokinni 1. umr. og neitað hefur verið ósk frá þremur þingflokkum um að 1. umr. verði haldið áfram til að hægt sé að ræða við forsrh. beint og milliliðalaust um aðferð hans við setningu þessara bráðabirgðalaga. Þetta er auðvitað fullkomið gerræði af hálfu stjórnar þingsins og því ber að mótmæla mjög harðlega. Það er líka mjög athyglisvert að Sjálfstfl. á fjóra þingmenn í sjútvn., þeir hafa allir verið hér á þingfundum í dag. Þrír þeirra, Matthías Bjarnason, Vilhjálmur Egilsson og Árni R. Árnason hafa hins vegar kosið að vera fyrir utan þingsalinn í þessari atkvæðagreiðslu og sá eini sem er eftir, Guðmundur Hallvarðsson, lýsir því yfir að þar sem ekki sé um efnisatkvæðagreiðslu um málið þá sé hann að vísu sammála því að 2. umr. fari fram.
    Þessi staðreynd sýnir náttúrlega til viðbótar við framgöngu forsrh. og það gerræði sem forseti þingsins beitt hér í nótt hvernig þetta bráðabirgðamál er statt. Ég sit því hjá og greiði því ekki atkvæði að vísa þessu máli til 2. umr.