Stöðvun verkfalls fiskimanna

77. fundur
Miðvikudaginn 26. janúar 1994, kl. 15:13:08 (3505)

[15:13]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég tel að óeðlilegt hafi verið að ljúka umræðunni í gær með þeim hætti sem gert var.
    Í fyrsta lagi vegna þess að ég sýndi fram á í umræðunni í gær að lögskráning á skip hófst á vegum opinberra aðila nokkrum klukkutímum áður en bráðabirgðalögin voru sett. Þar með voru lögskráningarstofur þátttakendur í því að reyna að brjóta verkfallið niður því að verkfallið var löglegt. Þetta var lögbrot undir skjóli yfirvalda. Þetta vildi hæstv. dómsmrh. ekki ræða í gærkvöld.
    Í öðru lagi tel ég að umræðan hefði þurft að vera lengri vegna þess að það bendir allt til þess eftir upplýsingar frá hæstv. sjútvrh. að hæstv. forsrh. hafi veitt forseta Íslands ófullnægjandi upplýsingar um stöðu mála í þingliði stjórnarinnar þegar bráðabirgðalögin voru sett.
    Í þriðja lagi vil ég, með því að sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu, mótmæla einstökum vinnubrögðum forseta þess sem nú situr, gerræðislegum og ólýðræðislegum vinnubrögðum og fullyrði að í langan tíma hefur stjórnarandstöðu ekki verið sýndur annar eins dónaskapur . . .
    ( Forseti (GunnS) : Forseti verður að minna hv. þm. á að ræðutíma hans er lokið.)
     . . .  og hæstv. núv. forseti sýndi stjórnarandstöðunni í gærkvöldi.