Lögskráning sjómanna

77. fundur
Miðvikudaginn 26. janúar 1994, kl. 15:24:45 (3510)


[15:24]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Í umræðunum hér í gær beindi hv. 9. þm. Reykv. þeirri fyrirspurn til mín hvort ég hefði beitt mér fyrir því eða gefið fyrirmæli um að lögskráningarskrifstofur yrðu opnaðar áður en lögin um stöðvun verkfallsins voru gefin út. Síðar í umræðunni bar hann á mig þá ásökun að ég hefði gefið þau fyrirmæli út. Ég kom hér upp og fullyrti eins og satt er og rétt að ég gaf engin slík fyrirmæli. Þrátt fyrir þá yfirlýsingu mína sem er sönn og rétt, ( SvG: Hver gaf fyrirmælin?) þá kom hv. þm. hér aftur og aftur og bar hinar sömu ásakanir, hinar sömu dylgjur á mig og leyfði sér í lokin að koma upp og segja hversu oft sem sannleikurinn væri sagður í málinu þá skyldi hann halda áfram með róg og lygar í þessu máli. Þetta voru ummæli hv. 9. þm. Reykv. hér í gær.
    Ég hef aldrei í þessum umræðum fjallað um það hvort þessar lögskráningarskrifstofur voru opnaðar. Fyrirspurnin sem var borin fram laut að því hvort ég hefði gefið slík fyrirmæli og ásökunin sem síðan var borin fram áður en ég fékk tækifæri til að svara fyrirspurninni var sú að ég hefði gefið fyrirmælin. Og eftir að ég hafði upplýst að svo var ekki þá var ásökunin borin fram aftur og aftur og því haldið fram að það yrði gert hversu oft sem sannleikurinn yrði sagður í málinu. Þetta er nú staðreynd málsins og ég ítreka enn og aftur að það er ekki hv. 9. þm. Reykv. til sóma að bera málflutning af þessu tagi á borð hér og ég minni svo á að ( SvG: Hver gaf fyrirmælin?) það var ekkert því til fyrirstöðu að halda umræðunni áfram í gærkvöldi um efnisatriði málsins. Ég minni á að það voru hv. þm. stjórnarandstöðunnar sem staddir voru hér í húsinu sem tóku ákvörðun um að ganga út af fundi áður en umræðunni lauk. Það voru þeir sem tóku þá ákvörðun með mjög sérstæðum hætti að ganga út af fundinum áður en umræðunni lauk og þeir geta ekki mikið kvartað yfir því að aðrir hafi komið í veg fyrir að umræðan héldi áfram eins og hv. þm. gerði í ræðu sinni.