Lögskráning sjómanna

77. fundur
Miðvikudaginn 26. janúar 1994, kl. 15:37:42 (3519)


[15:37]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vil vegna þeirra upplýsinga sem hér hafa komið fram fara fram á það við forseta að hann gangist fyrir því að athuga hvort ekki er unnt að fá þessi mál tekin upp á þinginu í formi utandagskrárumræðu með einhverjum öðrum hætti þannig að svigrúm gefist til að ræða þetta mál efnislega og ítarlega.
    Hér eru auðvitað grafalvarlegar upplýsingar á ferð og hæstv. sjútvrh. hefur engar skýringar gefið aðrar en þær að neita því að hann hafi gefið fyrirmæli um þetta verkfallsbrot og hreyta svo fúkyrðum í þá þingmenn sem dregið hafa upplýsingar um þetta fram í dagsljósið. Við þetta er ekki hægt að una. Ég held að það sé algerlega óhjákvæmilegt að hér gefist tími fyrir umræður um þetta mál ekki seinna en á morgun og hæstv. sjútvrh. komist ekki upp með annað en að leggja spilin á borðið úr því hann fæst ekki til að gefa um þetta neinar upplýsingar hér og nú. Það er ljóst að þessi starfsemi er á ábyrgð hæstv. ráðherra sem dómsmrh. og það hlýtur að skipta máli hvort það var a.m.k. með vitund hans sem þessi verkfallsbrot fóru fram. Það er munur á því annars vegar að gefa bein fyrirmæli um að lögskráningarskrifstofur skuli vera opnaðar utan venjulegs vinnutíma og hinu að vita af því að slíkt sé gert. Ég vænti þess að það sé fremur óvenjulegt að slíkt sé gert og þess vegna spurning hvort slík ákvörðun væri tekin nema þá a.m.k. að höfðu samráði við ráðuneytið eða yfirvöld þessara mála. Ef hæstv. sjútvrh. treystir sér ekki til að standa sig betur í að veita upplýsingar um þetta mál en hann hefur hingað til gert þá er algerlega óhjákvæmilegt að taka það upp og að fram fari opinber rannsókn á því hvað hefur skeð. Það vill svo til að strax í umræðunni í gærdag þá vakti ég athygli á þessu máli og lagði spurningar fyrir ráðherrann þannig að honum hefði átt að vera í lófa lagið að afla upplýsinga um það frá sínu ráðuneyti hvernig þetta væri í pottinn búið. En frammistaða hans er, eins og raun ber vitni, að svara illu einu. Það er fyrst og fremst til marks um vondan málstað vænti ég og þá þarf það að koma allt saman í ljós hvernig í pottinn er búið.
    Mín ósk, hæstv. forseti, og athugasemd um stjórn fundarins er því sú að ég held að það væri okkur fyrir bestu ef við gætum náð samkomulagi um það hvernig með þetta mál verður farið á næstunni. Ég sé ekki annað eins og það stendur nú en óhjákvæmilegt sé að fá tíma til frekari umræðna um það.