Lögskráning sjómanna

77. fundur
Miðvikudaginn 26. janúar 1994, kl. 15:40:42 (3520)


[15:40]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Vegna þess sem fram kom í ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e. vil ég minna hann á að hv. 9. þm. Reykv., sem er forustumaður í hans flokki, hefur borið á mig hér þær sakir í þinginu, ekki einu sinni ekki tvisvar heldur mörgum sinnum, að ég hafi gefið fyrirmæli um að lögskráningin væri opnuð áður en bráðabirgðalögin voru gefin út. Ekki einasta að ég hafi haft vitund um að það færi fram heldur að ég hafi beinlínis gefið um það fyrirskipanir. Þessar sakir hafa verið bornar á mig af forustumanni Alþb. ( GHelg: Það leiðir af sjálfu sér.) Það er ekkert smáræði. ( GHelg: Ráðherrann er ábyrgur.) Það er ekkert

smáræði að bera slíkar sakir fram.
    En hafi þessi lögskráning farið fram eins og hv. þm. vitnar til með lestri úr lögskráningarskjölum þá er meira en sjálfsagt að afla allra upplýsinga um það hver hafi óskað eftir að lögskráningarskrifstofan yrði opnuð og hver hafi tekið um það ákvarðanir. Það er að sjálfsögðu rétt að afla þeirra upplýsinga og gefa þær.
    Ég vil upplýsa það að mér er ekki kunnugt um að sjómannasamtökin hafi kvartað við dómsmrn. Það kann þó að vera en mér er ekki kunnugt um að svo hafi verið. En það er meira en sjálfsagt að veita þær upplýsingar, bæði þeim alþingismönnum sem um það spyrja og eins sjómannasamtökunum. Það dregur ekki úr hinu með hvaða hætti hv. 9. þm. Reykv. hefur borið fram sínar ásakanir. Og ég þykist vita að þær séu ekki bornar fram með þeim hætti að það sé gert í umboði eða þökk þeirra sjómanna sem hlut eiga að máli en það er sjálfgefið að veita þær upplýsingar sem að er spurt. En orðræður hv. 9. þm. Reykv. hafa ekki lotið í þá veru heldur að bera fram órökstuddar ásakanir.