Starfshættir nefnda, vinnubrögð í landbúnaðarnefnd

77. fundur
Miðvikudaginn 26. janúar 1994, kl. 15:59:23 (3527)


[15:59]
     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Fyrir það fyrsta voru sex þingmenn mættir á fundi landbn. í morgun. Út af því sem hér hefur sérstaklega komið fram dreifði ég þessu frv., fékk leyfi til að útbýta því í nefndinni vegna þess að ég hafði verið spurður á mánudagsfundinum hvort eitthvert slíkt frv. væri á ferð. Ég gat þess alveg sérstaklega að það væri ekki búið að ganga frá frv. Það ætti eftir að fara nánar yfir tollskrána og meta það hvort þar yrðu breytingar á. Ég tók það alveg sérstaklega fram.
    Ég vil enn fremur geta þess að á þriðjudagsfundinum, fundinum í gær, var gengið frá dagskrá. Þá var ákveðið hvað ætti að fara fram á fundinum í dag og þeirri dagskrá fylgt. Hún var ákveðin af landbn. á fundi í gær og henni fylgt í dag. Um fundarboðunina var því samkomulag í gær og samkomulag um dagskrá fundarins eins og hann fór fram í dag. Þetta er alveg nauðsynlegt að komi fram í þessari umræðu.