Starfshættir nefnda, vinnubrögð í landbúnaðarnefnd

77. fundur
Miðvikudaginn 26. janúar 1994, kl. 16:07:32 (3531)


[16:07]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi vil ég segja það við virðulegan forseta að þegar óskað er eftir úrskurði forseta þá er ekki endilega nauðsynlegt fyrir forseta að hugsa sig ekki um. Þegar ég var að biðja forseta um úrskurð í því flókna máli sem hér hefur verið til umræðu þá hefði hann getað tekið sér frest og kynnt sér málið og komið svo næsta dag og kveðið upp úrskurð. Það hefur oft gerst áður. Það er satt að segja ekki mjög gáfulegt hjá forseta að sitja á forsetastól, vita lítið um málið sem verið er að fjalla um, vera svo í hvíslingum við einhvern embættismann þingsins og rjúka upp og kveða upp úrskurð.
    Þess vegna vil ég beina því til forseta að hann gaumgæfi vinnubrögð sín. Því það er alveg ljóst að sú grein sem hann á við og hefur vitnað til, 26. gr., er ekki það sem verið er að tala um. Í þingsköpunum er gerður alveg skýr greinarmunur á því hvað er mál og hvað er frv. 26. gr. fjallar vissulega um það að þingnefnd geti tekið upp mál en það vita það allir í þessum sal að landbn. hefur verið að fjalla um tiltekið frv. sem lýst var yfir að yrði lagt fram í gær eða í dag. Forseti verður auðvitað að gera greinarmun á því hvort nefndin er að fjalla um frv. eða um almennt mál sem hún síðan gefur þinginu skýrslu um.
    Þess vegna vil ég biðja virðulegan forseta að taka úrskurð sinn til endurskoðunar og gera hann nákvæmari því það var alls ekki umfjöllunin um mál sem ég var að tala um. Það er t.d. alveg óljóst, virðulegi forseti, eftir þessa umræðu hér og eftir svör formanns landbn. hvort landbn. er almennt að fjalla um innflutning á búvörum, m.a. í ljósi hæstaréttardómsins, spjalla um það fram og aftur, og allt í lagi með það eða hvort landbn. er að fjalla um frv. um þetta efni.
    Það hefur verið upplýst hér að í gær hafi hún verið að fjalla um frv. Það hefur alls ekki komið fram með skýrum hætti hvort hún var að því í dag eða ekki. ( JVK: Eða hvort hún á að búa til frv.) Eða hvort hún ætlar að búa sér til frv. Það vita allir að það mál er sérstaklega mikilvægt vegna þess að í því máli gengur klukkan. Verslunaraðilar hér hafa ákveðið að flytja inn búvöru og hún er á leið til landsins. Því hefur verið lýst yfir af hálfu ríkisstjórnarinnar að málið sé brýnt og þurfi að taka fyrir. Hún hefur ekki getað leyst málið og lagt hér fram frv. þrátt fyrir yfirlýsingar og hv. formaður landbn., Egill Jónsson, hefur ekki getað svarað því í dag: Er hann að búa landbn. undir það að flytja frv. um málið eða ekki? Ætlar landbn. ekki að fjalla um neitt frv. fyrr en það er komið frá ríkisstjórninni?
    Þetta eru auðvitað algjörlega (Forseti hringir.) skýr atriði og leiða til þess, virðulegi forseti, að ég beini því til forseta að næst þegar hann þarf að úrskurða í flóknum málum þá taki hann sér umhugsunarfrest. Ég held að við munum allir hafa fullan skilning á því að virðulegur forseti þarf stundum að hugsa.