Atvinnuleysið og aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn því

78. fundur
Fimmtudaginn 27. janúar 1994, kl. 12:16:12 (3548)


[12:16]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Atvinnuleysi er mikill bölvaldur í íslensku samfélagi í dag og atvinnusköpun hlýtur að vera meginviðfangsefni allra í íslensku þjóðfélagi, jafnt stjórnvalda sem samtaka launþega og vinnuveitenda. Þetta er verkefni þjóðarinnar allrar og atvinnuleysi er meginbölvaldur í íslensku samfélagi í dag. Þetta vita allir. Um þetta eru allir sammála. Það þarf ekki að halda hér utandagskrárumræðu til að vekja athygli á þessu því þetta er öllum ljóst. Það sem skiptir hins vegar meginmáli er það hvernig brugðist verður við þessum vanda. Hvernig verður brugðist við vandanum? Verður brugðist við vandanum með atvinnusköpun í anda fortíðarinnar?
    Hv. þm. Svavar Gestsson gat hér um Akureyrardvöl iðnn. Hann sleppti því hins vegar að geta þess að í fyrirtækjum sem hafa lengi glímt við mikinn vanda, ég nefni sérstaklega skinnaiðnaðinn og ullariðnaðinn, þar er frekar bjartsýni heldur en áður hefur verið og það er m.a. vegna þess að þar hefur verið komið til móts við þarfir fyrirtækja til að laga sig að nýjum aðstæðum sem höfðu komið fram fyrir löngu með tilstilli Atvinnuleysistryggingasjóðs og framlaga frá opinberum aðilum.
    Það er verið að skoða fyrir norðan málefni Slippstöðvarinnar. Það er búið að gera eina tilraun til þess að koma því fyrirtæki á réttan kjöl sem var gjörsamlega í þrotum þegar þessi ríkisstjórn tók við. Og það er verið að gera nýja tilraun til þess núna með nýjum iðnrh. að taka á vandamálum skipasmíðaiðnaðarins. Þessu sleppti hv. þm. en ég ætla hins vegar að geta þess sérstaklega að á fundi iðnn. með verkalýðsfélögunum á Akureyri þá gaf að líta hvernig menn vilja taka á þessum atvinnuleysisvanda. Í máli hv. þm. Páls Péturssonar á fundi með atvinnulausum á Akureyri þá gat hann þess að hann væri farinn að velta því fyrir sér að það væri full ástæða til þess að örva atvinnulíf með hærri verðbólgu.
    Og ég heyrði ekki betur en í máli hv. þm. Finns Ingólfssonar áðan þá hafi einmitt komið fram saknaðartónn frá framsóknaráratugnum, eins og hann kallaði það svo, þegar atvinnulíf var sterkt. Og hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson gat þess líka sérstaklega að atvinnulífið áður fyrr hefði verið sterkt atvinnulíf. Við skulum skoða þetta dálítið nánar.
    Eigum við að skapa atvinnu hér á landi í anda fortíðarinnar? Að sjálfsögðu hefur verkalýðshreyfingin ekki mælt með því. Hún hefur mælt með því að það verði barist fyrir stöðugleika, það verði barist fyrir atvinnusköpun á grundvelli stöðugleika. Ég nefni sérstaklega Guðmund Gylfa Guðmundsson, hagfræðing ASÍ, sem hefur varað við þessum hugmyndum sem Páll Pétursson orðaði á fundinum á Akureyri. Auðvitað er hægt að skapa atvinnu með óðaverðbólgu þegar fyrirtækin og einstaklingarnir keppast við að fjárfesta vegna þess að krónurnar brenna á verðbólgubálinu og vöruverð þýtur upp á við með miklu meiri hraða en peningarnir í launaumslögunum. Þetta er hægt og þetta var gert í stórum stíl.
    Þessar aðstæður sem ég lýsti hér voru aðstæður fortíðarinnar, þær skapa ekki traustan grundvöll undir atvinnustarfsemi, það er öðru nær. Þær skapa einmitt grundvöll fyrir því að atvinnustarfsemin verði byggð upp með þeim hætti að atvinnuleysi komi í ljós síðar meir og þær skapa í raun og veru þær aðstæður að það er innbyggt atvinnuleysi í kerfinu sem menn fela á meðan svo er haldið áfram.
    Það er ekki á slíkum tímum og var ekki fjárfest í rannsóknum og þróunarstarfsemi, það var fjárfest í tækjum og steinsteypu. Er þetta sá draumur sem menn vilja horfa til baka til? Já, mér heyrist það vera, að þetta sé draumurinn sem menn vilja endurvekja á Alþingi nú þegar fólk býr við raunverulegar afleiðingar af þessu ástandi. Og þegar blásið er til fundar um atvinnumál og atvinnuleysi, þá vilja menn hverfa til baka til þessara tíma. Er það skynsamlegt? Er þetta það sem koma skal?
    Það er að sjálfsögðu líka hægt að halda uppi háu atvinnustigi með því að eyða umfram það sem aflað er, með því að slá lán endalaust erlendis, með því að stofna til viðskiptahalla stöðugt hreint sem stóð nú reyndar í 20 ár. Auðvitað hefur sá viðskiptahalli staðið undir einhverri þenslu og atvinnu sem á því byggir. Er þetta það sem koma skal? Auðvitað er það ekki það sem koma skal.
    Hér minntist hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson á það að atvinnuleysi væri helmingi meira á Íslandi en í Japan í dag. Er atvinnuleysið í Japan 2,5%? Er það 2%, hv. þm.? Nei, það er löngu viðurkennt að þetta atvinnuleysi er miklu meira. Af ábyrgum aðilum er talað um að það sé innbyggt atvinnuleysi í Japan sem nemi 5--6%, sumir tala um 7% ( ÓRG: Lestu bara sjálfur . . .  ) og hvers vegna er það? Þessar upplýsingar hafa komið fram, hv. þm., og ég trúi ekki öðru en þú þekkir þær. Hvernig stendur á þessum upplýsingum? Jú, þær eru að það er fjöldi fyrirtækja, stórfyrirtækja, í Japan sem hefur fjölda manns á skrá sem ekkert gerir. Það hefur verið pólitík fyrirtækjanna að segja ekki upp fólki þó ekkert væri fyrir það að gera. Er það þetta sem við erum að biðja um? Nei, auðvitað ekki. Við viljum ekki fá hér atvinnuleysi sem er hulið. Við viljum fá raunhæfar ráðstafanir. Við ætlum sem sagt ekki að halda áfram á þessari braut.
    Það hefur verið stefna þessarar ríkisstjórnar að hverfa frá þessari tegund af atvinnustefnu og fyrir það hefur hún verið harðlega gagnrýnd af stjórnarandstöðunni. Það er í raun og veru eitt af meginverkefnum þessarar þjóðar að hverfa frá skammtímalausnum í þessum efnum og reyna að horfast í augu við vandann. Við stöndum ekki vel að vígi nú til að glíma við þessi verkefni en við gerum það samt.

    Við lifum nú á tímum lækkandi verðlags á afurðum okkar og ég er undrandi á því að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson skuli hafa haldið því fram hér áðan að afurðir okkar hafi hækkað í verði þegar það er staðreynd að afli okkar lækkaði í verði að meðaltali um 10% í erlendum gjaldeyri. ( ÓRG: Tekjur fyrirtækjanna hafa aukist. Lestu bara ... skýrslu.) Afli okkar lækkaði um 10% á sl. ári í erlendum gjaldeyri og það er það sem skiptir máli en ekki íslensku krónurnar. ( ÓRG: Það eru heildartekjurnar sem skipta máli.) Þetta tek ég fram vegna þess að það er fáránlegt að halda því fram að þessi meginstaðreynd hafi ekki áhrif á atvinnustigið hér. Hún hefur þeim mun meiri áhrif en áður að við höfum verið að laga okkur að raunveruleikanum á öllum öðrum sviðum. Þannig að þessir erfiðleikar koma að fullu niður á atvinnustigi okkar.
    Þetta vil ég taka fram hér að mér finnst ankannalegt og sérkennilegt að efna til umræðu um atvinnumál á Íslandi án þess að taka tillit til þess að atvinnulífið á Íslandi hefur á mörgum árum orðið að horfast í augu við sérstök vandamál sem eiga rætur að rekja á þremur meginsviðum. Í fyrsta lagi hefur orðið mikill aflasamdráttur og verðfall á löngum tíma. Það hafa orðið mikil umskipti í okkar viðskiptaumhverfi. Ég nefni sérstaklega þá umbyltingu sem hefur orðið í Austur-Evrópu. Þar höfum við glatað mjög sterkum mörkuðum sem áður voru og við vorum innstilltir á, höfðum vanið okkur á. Auk þess hefur komið gífurlegt framboð af þessum láglaunasvæðum á vörutegundum sem má flokka undir undirboð á mörkuðum í Vestur-Evrópu og þetta könnumst við öll við. En sennilega eru alvarlegustu mistökin sem orðið hafa á Íslandi og bitna nú harðlega á atvinnulífinu óstjórn í efnahagsmálum sem hefur leitt til rangra fjárfestinga og til þess að atvinnustig hefur litið út fyrir að vera miklu betra heldur en það var. En hér var innbyggt atvinnuleysi sem átti eftir að koma í ljós og hefur verið leitt í ljós núna og menn horfast nú í augu við.
    Ég held að það sé rétt að leggja áherslu á það að það er þetta sem menn verða að takast á við, við þetta verða menn að glíma. Og hvernig er hægt að glíma við það? Það er hægt með því að takast raunverulega á við vandann, með því að fjárfesta í því sem skiptir máli, sem eru rannsóknir og þróunarstarf, með því að fjárfesta í mannaflanum sem þarf að laga sig að síbreyttum aðstæðum. Og það er verið að gera þetta. Það er búið að auka hér rannsóknafé um 90% á tveimur árum. Það er verið að laða fyrirtækin til þess að taka aukinn þátt í rannsóknastarfsemi sem þau hafa ekki gert sem skyldi á undanförnum árum. Það er verið að laga þessa atvinnuþróun að því með því m.a. að styrkja tæknimenn inn í fyrirtæki til þess að örva rannsóknastarfið. Þetta er allt saman gert, þetta skilar ekki árangri strax. Það þýðir ekki að horfa framan í þjóðina og segja að þetta skili árangri strax, enda segi ég það ekki. En það mun skila árangri þegar til lengri tíma er litið.