Atvinnuleysið og aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn því

78. fundur
Fimmtudaginn 27. janúar 1994, kl. 12:25:52 (3549)


[12:25]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Við alþingismenn og þjóðin öll krefjumst þess að ríkisstjórnin geri grein fyrri atvinnu- og launastefnu sinni og þeim áformum sem koma mega í veg fyrir það launamisrétti sem nú er og það skelfilega atvinnuleysi sem hér virðist vera orðið viðvarandi og aldrei hefur mælst meira nema ef vera kynni á árunum fyrir 1970 þegar sömu flokkar fóru með völd í landinu.
    Hverju hafa áform þessara áróðurspésa ríkisstjórnarinnar, sem gefinn var út fyrir réttu ári síðan með yfirskriftinni ,,Aðgerðir gegn atvinnuleysi``, skilað launafólki í dag? Það munu launþegar sjálfir segja ríkisstjórninni hérna fyrir utan Alþingishúsið síðdegis í dag. Er það kannski rétt, sem ráðherrar hafa gjarnan gripið til í vörn sinni fyrir getuleysi sínu við að skapa atvinnulífinu ásættanleg starfsskilyrði og launþegum viðunandi laun og atvinnustig, að viðskilnaður ríkisstjórnar Steingríms Hermannsonar hafi verið svo slæmur að þar liggi öll sökin? Hvað segir Alþýðublaðið um það? ,,Hagstæðara ár en flesta grunaði var árið þegar sú ríkisstjórn fór frá völdum,`` segir Alþýðublaðið. Þjóðhagsstofnun kveður líka upp dóm um viðskilnað ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar og þar segir að afkoma atvinnuveganna, einkum sjávarútvegs og iðnaðar, hafi þá verið með því besta sem verið hafði í áratugi. Það er álit Þjóðhagsstofnunar sjálfrar. Það sannaðist svo ótvírætt við stjórnarskiptin að skjótt skipast veður í lofti. Allt það mikla starf sem unnið hafði verið til endurskipulagningar í atvinnulífinu og auknum atvinnutækifærum launafólks var brotið niður á fyrstu starfsdögum núverandi ríkisstjórnar.
    Morgunblaðið skýrir frá ummælum Þorsteins Pálssonar sjútvrh. þar sem hann lýsir ástandinu í sjávarútvegsmálunum þannig að 59% þeirra séu á beinni gjaldþrotabraut. Þetta segir sjútvrh. sjálfur. Það er dómurinn á stefnu ríkisstjórnarinnar. Hvað segir Landssamband ísl. útvegsmanna á sínum ársfundi um stefnu núv. ríkisstjórnar í undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, sjávarúteginum? ,,Hrun í sjávarútvegi á næsta ári ef óbreyttri stefnu núverandi ríkisstjórnar verður haldið áfram.``
    Á þeim tæpu þremur árum sem núv. ríkisstjórn hefur setið við völd hafa tapast hvorki meira né minna en um 1.300 til 1.500 störf í íslenskum iðnaði. Og íslenskur landbúnaður og störf honum tengd eru á hraðri niðurleið. Stefnuleysi í sjávarútvegi hefur orðið til þess að vinnsla afurðanna flyst í vaxandi mæli út á sjó þannig að verðmæti í landi nýtast ekki og fiskverkafólk verður atvinnulaust. Með stefnu sinni hefur ríkisstjórnin fundið upp eilífðarvél á gjaldþrotabraut sinni.
    Með ríkisstjórn Davíðs Oddssonar urðu mikil þáttaskil í íslensku þjóðlífi. Það komu ekki aðeins

nýir ráðherrar með nýjar hugsjónir og stefnumið. Það komu einnig nýir ráðgjafar sem töldu það ásættanlegt markmið að atvinnuleysi á Íslandi gæti verið sem næst því sem það er í Evrópu en þar er það á bilinu 10 til 20%. Glæsileg lífssýn ungra manna eða hitt þó heldur. Ráðgjafarnir leggja nú til að farið verði að þjálfa og undirbúa fólk að búa við atvinnuleysi á Íslandi. Vitringar og ráðgjafar ríkisstjórnarinnar spá í sínar kristalkúlur og dr. Þorvaldur Gylfason segir að sjávarútvegurinn skipti okkur sífellt minna máli eins og hér kemur fram. Það mun hafa verið fyrir um það bil fimm árum sem þessi spekingur spáði en reyndin er nú samt sú að þrátt fyrir svo bágborin rekstrarskilyrði sem greinin má starfa við skilar útvegurinn hvorki meira né minna en um 75--80% á skiptaborð þjóðarinnar. Er nema von að illa fari þegar vegurinn er varðaður slíkum villuljósum?
    En á þá íslensk þjóð fáa möguleika. Nei. Hér eru margvíslegir möguleikar til að hrinda atvinnuleysinu frá dyrum launafólks. Forseti Landssambands iðnaðarmanna sagði á iðnþingi að fluttar væru inn iðnaðarvörur sem hægt væri að framleiða hér á landi fyrir hvorki meira né minna en um 20 milljarða kr. á ári hverju. Ekki væri óraunhæft markmið, sagði forseti Landssambands iðnaðarmanna, að færa það mikinn hluta þessarar framleiðslu inn í landið að skapa mætti hvorki meira né minna en um 4--5 þús. ný atvinnutækifæri í iðnaði. ( Gripið fram í: Þeir vilja það ekki.)
    Allir sem láta sig atvinnumál einhverju skipta vita að milljarðatugir eru í nýjum möguleikum í sjávarútvegi og þúsundir nýrra atvinnutækifæra. Hér vantar markvissa atvinnustefnu. Ísland býr yfir þeim auðæfum að hér á hvorki að þurfa að vera atvinnuleysi né fátækt eins og því miður virðist nú vera. Misskiptingin í landinu er orðin óskapleg. Atvinnuleysið er notað af ríkisstjórninni sem hagstjórnartæki, fjármagn og völd eru skipulega flutt á fárra hendur og þaðan er deilt og drottnað. Samráð og samvinna eru þessari ríkisstjórn framandi hugtök. Því er nú svo illa komið fyrir íslenskri þjóð.