Atvinnuleysið og aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn því

78. fundur
Fimmtudaginn 27. janúar 1994, kl. 12:32:54 (3550)


[12:32]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. v. krafðist þess að ríkisstjórnin gerði við þessar umræður grein fyrir atvinnustefnu sinni. Það er sjálfsagt að verða við því. Tímans vegna verðum við þó að takmarka okkar mál og ég læt mér nægja að nefna og draga fram í dagsljósið tíu meginatriði sem varða þessa atvinnustefnu.
    Í fyrsta lagi er það að tryggja íslensku atvinnulífi stöðugleika og lægri verðbólgu heldur en víðast hvar í viðskiptalöndum okkar.
    Í öðru lagi er það að tryggja kjarasamninga til tveggja ára og frið á vinnumarkaði sem ekki hefði tekist án atbeina ríkisstjórnarinnar.
    Í þriðja lagi er það að skapa íslenskum útflutnings- og samkeppnisatvinnuvegum hagstæðari samkeppnisstöðu heldur en verið hefur í a.m.k. fjóra áratugi.
    Í fjórða lagi er það að hafa skapað íslensku atvinnulífi gerbreytt skattaumhverfi þannig að skattlagning íslenskra atvinnufyrirtækja er nú einhver hin hagstæðasta ef við berum saman við aðrar samkeppnisþjóðir.
    Í fimmta lagi nefni ég sérstakar aðgerðir í sjávarútvegi til að tryggja rekstrarstöðu hans.
    Í sjötta lagi nefni ég til samræmdar aðgerðir þessarar ríkisstjórnar til þess að ná fram lækkun vaxta, bæði raunvaxta og nafnvaxta á traustum forsendum.
    Í sjöunda lagi nefni ég til nýja milliríkjasamninga sem opna íslenskum útflutningsatvinnuvegum ný tækifæri. Tækifæri til að efna til nýrrar sóknar á erlendum mörkuðum og eins til nýrrar vöruþróunar og aukinnar framleiðni innan lands og reyndar atvinnuskapandi aðgerða.
    Í áttunda lagi nefni ég sérstaklega aðgerðir sem eiga að stuðla að nýsköpun, vöruþróun og atvinnusköpun í atvinnulífinu.
    Í níunda lagi nefni ég sérstakar aðgerðir til þess að greiða götu útflutningsfyrirtækja á erlendum mörkuðum.
    Í tíunda lagi nefni ég sérstakar aðgerðir innan ramma fjárlaga sem lúta að framlögum á síðustu tveimur árum á bilinu 3 til 4 millj. kr. í samstarfi við sveitarfélögin til atvinnuskapandi aðgerða.
    Þessi tíu atriði nefni ég sem meginatriði þeirrar atvinnustefnu sem þessi ríkisstjórn hefur fylgt. ( SvG: Hvað eru margir atvinnulausir?) Að því er varðar sérstakar aðgerðir til þess að létta undir með og greiða götu þeirra sem fyrir barði atvinnuleysisins hafa orðið vísa ég til þeirra upplýsinga sem fram komu í máli félmrh. og þá sérstaklega sérstakar aðgerðir til skuldbreytinga og greiðsluaðstoðar þeirra sem eiga í greiðsluerfiðleikum, ekki síst húsbyggjenda og fleiri slíkar aðgerðir. ( ÓRG: Hefur þá stefnan mistekist með núverandi atvinnuleysi eða var það . . .  ?)
    Ég hef nefnt hér til sögunnar tíu meginatriði þeirrar atvinnustefnu sem núv. ríkisstjórn fylgir og þá er ástæða til að spyrja: Hefur stjórnarandstaðan fram að færa í grundvallaratriðum mikla gagnrýni á þá stefnu sem hér er lýst? Hefur stjórnarandstaðan lýst einhverri annarri atvinnustefnu? ( ÓRG: Svarið er já. Heil bók verið gerð um hana.) Já, það væri hægt að víkja að bókinni, útflutningsleiðinni frægu. ( ÓRG: Já, já.) Ég ætla nú að takmarka það. ( ÓRG: Nei, þú ættir ekki að gera það.) (Forseti hringir.) En ég ætla að fara nokkrum orðum um hvert og eitt þessara atriða sem ég hef nefnt til sögunnar.

    Það er rétt sem fram hefur komið að í tíð síðustu ríkisstjórnar tókst að draga úr verðbólgu sem hafði verið hér landlæg og til mikils skaða fyrir íslenskt atvinnulíf. Það er alveg fyrirsjáanlegt að verðbólga á næsta ári verður lægri en víðast hvar annars staðar í viðskiptalöndum okkar. Þetta þýðir einfaldlega að með þeim hætti er íslenskum atvinnufyrirtækjum í skjóli kjarasamninga til tveggja ára við skilyrði lágrar verðbólgu líka sköpuð tækifæri til þess að taka skynsamlegar ákvarðanir til að treysta því að atvinnurekstur þeirra býr við stöðug ytri skilyrði. Það vita allir sem nálægt atvinnurekstri hafa komið að þetta er eitt mikilvægasta skilyrðið sem unnt er að fullnægja að því er varðar atvinnustefnu.
    Að því er varðar kjarasamninga, annað meginatriðið, er alveg ljóst að þessir kjarasamningar hefðu ekki náðst nema fyrir atbeina ríkisstjórnarinnar og varðar það bæði aðgerðir í skattamálum og bein framlög til atvinnuskapandi aðgerða í samvinnu við sveitarfélögin.
    Þriðja atriðið er hagstæðari samkeppnisstaða en sl. fjóra áratugi. Þrátt fyrir mikla erfiðleika í sjávarútvegi bæði varðandi niðurskurð aflaheimilda, sérstaklega í þorskveiðum, og hríðfallandi afurðaverðs á erlendum mörkuðum sem leiddi til þess að ríkisstjórnin varð að fella gengið í tvígang, haustið 1992 og síðan um mitt ár 1993, var það hins vegar gert með þeim hætti að stöðugleikanum var ekki raskað og kjarasamningum var ekki kollvarpað. Þetta þýddi með öðrum orðum að verðhækkanir í kjölfar gengisbreytingarinnar, sem gerbreytti rekstrarstöðu útflutningsgreina og ekki síst sjávarútvegsins, urðu mjög skammvinnar. Raungengi íslenska gjaldmiðilsins er þess vegna hagstæðara nú bæði fyrir íslenska útflytjendur og samkeppnisiðnað á innlendum markaði heldur en hefur verið í 40 ár. Samkeppnisstaða Íslendinga á erlendum jafnt sem innlendum markaði hefur vegna hagstæðara raungengis ekki verið betra í annan tíma.
    Ég nefndi til sögunnar í fjórða lagi gerbreytt skattaumhverfi. Skattlagning íslenskra atvinnufyrirtækja hefur um áratuga skeið verið frábrugðin skattlagningu atvinnufyrirtækja í grannlöndum þannig að erlendir aðilar hafa yfirleitt ekki fengist til að leggja fram fé til eflingar íslensku atvinnulífi nema með sérstökum skilyrðum um undanþágur og forréttindi að því er varðaði skattamál. Skattaumhverfi íslenskra fyrirtækja er nú fyllilega sambærilegt við skattaumhverfi atvinnulífsins í nálægum löndum enda hefur sú breyting orðið á að erlendir aðilar sem rætt er við að leggja fram fé til íslensks atvinnulífs gera ekki lengur sérkröfur í skattamálum. Þeir eru reiðubúnir að sætta sig við íslensk skattalög eins og þau nú eru. Hér á ég bæði við niðurfellingu aðstöðugjaldsins, lækkun tryggingagjalda og almenna lækkun á tekjuskatti fyrirtækja.
    Að því er varðar sérstakar aðgerðir í sjávarútvegi þá er það rétt að sú leið hefur ekki verið farin að afla erlendra lána til að halda fyrirtækjum á floti til skamms tíma. Hins vegar hefur verið gripið til aðgerða eins og þeirra að Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins var lagður niður og greiddur út til eigenda og frá og með 1. jan. sl. hefur útflutningur á öllum fiski nema grásleppuhrognum verið gefinn frjáls, þar á meðal útflutningur á saltfiski. Nýir söluaðilar hafa verið að hasla sér völl erlendis og gengið vel. Þess er skemmst að minnast að það þótti tíðindum sæta í upphafi árs að fyrirtæki eins og Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum lýsti því yfir að hún hefði ætlað að hætta framleiðslu á saltfiskflökum til að koma á markað á Spáni og Portúgal ef ekki hefðu komið til þær tollalækkanir sem urðu í upphafi árs sem afleiðing af EES-samningunum. En framkvæmdastjórinn lýsti því yfir að hann gerði sér raunsæjar vonir um það að geta tífaldað þessa framleiðslu einfaldlega vegna þeirrar tollaniðurfellingar sem varð í upphafi árs.
    Ríkisstjórnin undirbýr nú ný lög um þróunarsjóð sjávarútvegsins til að greiða fyrir hagræðingu í íslenskum sjávarútvegi og fiskvinnslu og til að auðvelda sjávarútveginum að laga sig að gerbreyttu starfsumhverfi.
    Ég nefndi til sögunnar vaxtalækkun. Þegar ríkisstjórninni hafði tekist að draga úr viðskiptahalla úr 18 milljörðum í lok síðasta kjörtímabils niður í um 3 milljarða væntanlega á þessu ári, lækka útgjöld hins opinbera um a.m.k. 8,5 milljarða, festa í sessi stöðugleika í verðlagsmálum og á vinnumarkaði og hafði beitt aðgerðum til þess að bregðast við þeim vanda í kjölfar hruns fiskstofna, þá setti ríkisstjórnin fram samræmda áætlun um lækkun vaxta. Þennan árangur notaði ríkisstjórnin til þess að bregðast við á innlendum lánamarkaði í því skyni að ná fram lækkun vaxta og tókst með því að lækka vaxtastigið í landinu mjög verulega. Þetta er aðgerð sem Íslendingar hafa beðið um lengi. Hún bætir stöðu heimilanna í landinu um a.m.k. 2--5 milljarða kr. á ársgrundvelli, hún færir atvinnufyrirtækjum í landinu 2,5--3 milljarða í kjarabætur á sérhverju 12 mánaða kjaratímabili. Þetta er mikilvægasta aðgerðin sem gerð hefur verið til að breyta til bóta starfsumhverfi fyrirtækja og efnahagsumhverfi íslenskra heimila.
    Sjöunda atriðið sem ég nefni er ný tækifæri á erlendum mörkuðum í kjölfar EES-samningsins. Um það er auðvitað hægt að fjalla í löngu máli. Ég læt mér nægja að vísa til þess sem ég sagði, einfalt dæmi af Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum vegna þess að það dæmi er algilt. Með þessum samningi er sjávarútvegurinn á Íslandi í fyrsta skipti settur jafnfætis keppinautum sínum og öðrum iðnaðarframleiðendum á því markaðssvæði sem tekur við meira en 3 / 4 af öllum okkar afurðum. Fjöldi íslenskra fyrirtækja er búinn að vinna að því lengi vegna þess dráttar sem varð á gildistöku samningsins að nýta sér þessi tækifæri. Og það eru hin réttu viðbrögð við því þegar við stöndum frammi fyrir minni afla að gera úr honum meiri verðmæti. Þetta er ekki bara spurningin um aukna sókn á erlendum mörkuðum heldur einnig vöruþróun innan lands sem mun alveg ótvírætt þýða fleiri störf og atvinnutækifæri innan lands.
    Það er svo athyglisvert að þeir sem beita sér fyrir þessari umræðu voru flestir hverjir í hópi þeirra sem greiddu atkvæði á Alþingi Íslendinga gegn þessum samningi, gegn þessum nýju atvinnutækifærum eða

sættu sig við það hlutskipti að sitja hjá.
    Að því er varðar áttunda atriðið, atvinnuþróun og nýsköpun, þá vil ég nefna eftirfarandi: Iðntæknistofnun, m.a. í samstarfi við Iðnlánasjóð, hefur á síðustu árum aukið þjónustu við frumkvöðla í atvinnulífi og við nýsköpun innan fyrirtækja. Dæmi um það eru verkefni eins og Vöruþróun 1992 og á næsta ári Vöruþróun 1994 þar sem einstaklingar og fyrirtæki með góðar hugmyndir fá verulega aðstoð við þróun og markaðssetningu. Fleiri slíkar áætlanir eru þegar bæði í undirbúningi og í framkvæmd. Það hefur verið lögð aukin áhersla á samstarf rannsóknastofnana atvinnuveganna og eru nýjustu dæmin um það samstarf á sviði matvælarannsókna og þróun tæknibúnaðar fyrir sjávarútveg. Ríkisstjórnin hefur samþykkt nýja stefnu í vísindamálum sem á að gera opinber framlög skilvirkari fyrir atvinnulífið og þannig mætti lengi telja. Þess er síðan að geta að íslenskir vísindamenn og stofnanir eiga nú kost á þátttöku í fjölda rannsókna- og þróunarverkefna í kjölfar EES-samningsins sem vafalaust verður þeim lyftistöng.
    Fram kom í máli eins hv. þm. að bein framlög til aukinna rannsókna og nýsköpunar hafi verið því sem næst tvöfölduð. Þannig mætti lengi telja.
    Loks er að geta þess að ríkisstjórnin hefur með beinum framlögum í samstarfi við sveitarfélögin lagt fram fé til atvinnuskapandi aðgerða sem alveg ótvírætt skilaði umtalsverðum árangri á síðasta ári. Félmrh. vék síðan að því að að svo miklu leyti sem þessar aðgerðir hafa þrátt fyrir allt ekki dugað hér frekar en annars staðar til þess að koma á fullri atvinnu þá hefur ríkisstjórnin beitt sér fyrir öðrum aðgerðum og hefur enn aðrar í undirbúningi til að létta undir með þeim sem hafa orðið fyrir barðinu á því þungbæra hlutskipti að missa vinnuna.
    Virðulegi forseti. Það er ástæða til að fagna því ef Alþingi Íslendinga efnir til umræðu um atvinnustefnu, um atvinnumál og um aðgerðir til að draga úr atvinnuleysi og bæta kjör þeirra sem tímabundið eiga við atvinnuleysi að stríða. Ég viðurkenni það að ég á hins vegar nokkuð bágt með að skilja hugarfar þeirra manna sem telja að þetta mál sé sérstakt tilefni til þess að hreykja sjálfum sér, slá sig til riddara eða gefa á þessu máli þær einfeldningslegu skýringar að hér sé einungis um það að ræða að í ríkisstjórn Íslands sitji illgjarnir menn sem beinlínis stefni að því að koma á atvinnuleysi eða viðhalda því. Ég fæ ekki séð að nokkur sé að bættari, hvorki þeir menn sem þessum málflutningi beita né heldur það fólk sem hefur orðið fyrir barðinu á atvinnuleysinu. Satt að segja hélt ég við værum öll sammála um það að atvinnuleysið væri þess konar mannfélagslegt böl að við værum öll sammála um að það væri alvarlegra en svo að það ætti að vera bitbein í pólitískum skotgrafahernaði af þessu tagi.
    Ég ber ekki mikla virðingu fyrir því þegar menn reyna að segja að það séu engar raunverulegar ástæður fyrir því að atvinnuleysið hefur reynst vera svona illviðráðanlegt vandamál. Þegar menn t.d. segja að ástæðunnar sé alls ekkert að leita í sjávarútveginum vegna þess að afli hafi reynst vera meiri en spáð var í upphafi.
    Má ég fara örfáum orðum um það hverjar eru orsakir þess að kreppir svona að í okkar þjóðfélagi. Ég held að einfaldast sé að gera sér grein fyrir því með þessum hætti: Ef við við berum saman vöxt þjóðarframleiðslu á Íslandi á árinu 1988 til þess sem spáð er á árinu 1994 og gerum samanburð á því ár frá ári við aukningu þjóðarframleiðslu í helstu viðskiptalöndum OECD er niðurstaðan sú að Íslendingar hafa verið að dragast aftur úr. Við höfum verið að fara í gegnum samfellt hnignunar- og samdráttarskeið. Þessi samanburður leiðir það í ljós að ef við hefðum haft sama hagvöxt, sömu aukningu þjóðarframleiðslu, og þessi viðskiptalönd okkar þá væri þjóðarframleiðsla okkar núna 250 milljörðum meiri en hún er í dag. (Forseti hringir.) Við þetta bætist síðan að við þurfum á næsta ári að borga yfir 50 milljarða kr. í fjárhirslur útlendinga vegna erlendra lána sem tekin voru í góðærinu. Þetta eru ástæðurnar fyrir því að það kreppir að í íslensku atvinnulífi. Fyrir utan það að (Forseti hringir.) það er sérstakt vandamál við að fást í sjávarútveginum. Menn eiga ekki að gera lítið úr þessu, menn eiga ekki að láta eins og þessi vandmál séu ekki fyrir hendi, menn eru ekkert að bættari með því að hreykja sér á kostnað þess fólks sem í þessum vandamálum lendir og (Forseti hringir.) ég vek athygli á því að ( SvG: Hver er að því? Hver er að hreykja sér á kostnað atvinnulausra?) stjórnarandstaðan sem hér hefur talað hefur verið afar lítt málefnaleg og hefur ekki nefnt nein þau úrræði sem máli skipta um það hvernig hún hefði haldið á málum öðruvísi. ( ÓRG: Bölvað rugl er þetta.)