Atvinnuleysið og aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn því

78. fundur
Fimmtudaginn 27. janúar 1994, kl. 13:04:50 (3552)


[13:04]
     Guðmundur Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Það er ekki að heyra á þeim ræðum sem hér hafa verið fluttar að breytingar séu að verða á atvinnustefnu stjórnarinnar. Það kom ekkert nýtt fram eða annað það sem gefur fyrirheit um nýja tíma, hvorki í ræðum hæstv. fjmrh. né hæstv. félmrh. Varðandi þá ræðu sem hæstv. utanrrh. flutti áðan þá undrar mig að ég gat ekki betur heyrt á máli ráðherrans en að hann vildi helst ekki að þessi mál væru rædd. Hann taldi engan tilgang með því og hann gerði stjórnarandstöðunni upp að hún hefði einhverjar annarlegar hugsanir í garð ráðherra stjórnarinnar í atvinnumálum. Það væri auðvitað ekki gott ef svo væri en ég heyrði ekki betur en hæstv. ráðherra gerði stjórnarandstöðunni upp annarlegar hvatir, svo ekki sé meira sagt, með þessum umræðum sem þó eru bæði tímabærar og nauðsynlegar.
    Því verður því miður ekki á móti mælt að atvinnuleysið hér á landi hefur vaxið óhugnanlega undanfarin missiri og því miður virðist ekkert lát á þeirri þróun, hvað þá að úr atvinnuleysinu dragi. Um síðustu áramót var atvinnuleysi á landinu öllu skráð um 6,3% en það er vitað að atvinnuleysisskráningin segir ekki alla söguna. Atvinnuleysið er í raun meira.
    Í Norðurlandskjördæmi eystra var atvinnuleysi 9,7%. Á Akureyri, þar sem ég bý, var atvinnuleysið um síðustu mánaðamót 14%. Það hefur minnkað núna niður í 10%. Þegar þessi orð eru töluð er 10% atvinnuleysi á Akureyri. Þetta er í einu orði sagt óhugnanlegt.
    Hv. 9. þm. Reykv., Svavar Gestsson, talaði áðan um heimsókn sína til Akureyrar þar sem hægt væri að fá eins konar sýnikennslu í því hvernig atvinnustefna ríkisstjórnarinnar getur leikið einstaka staði. Má það vel vera að svo sé. Ég vil hins vegar taka það fram að á Akureyri eru mýmargir möguleikar og margt hægt að gera og vissulega hefur margt verið gert þar þó þar hafi verið við mikla erfileika að stríða undanfarin ár. En ég tók líka eftir því að hv. þm. Tómas Ingi Olrich átaldi Svavar Gestsson fyrir að hafa sleppt ýmsu því sem gert hefur verið í atvinnumálum á Akureyri. Hann nefndi m.a. endurreisn Slippstöðvarinnar Odda en hann sleppti ýmsu líka. Það verður að taka það fram þegar það er sagt að þegar rekstur Slippstöðvarinnar Odda var endurreistur fyrir u.þ.b. rétt rúmu ári var það gert þrátt fyrir áhugaleysi og aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar og átti þó ríkið 1 / 3 í fyrirtækinu. ( Fjmrh.: Þetta er ekki rétt.) Ríkið ákvað að koma hvergi nærri í þeim málum og kannski er það einmitt þess vegna . . .  ( Fjmrh: Þetta er alrangt.) Hæstv. ráðherra, það mun koma að þér og þá getur þú svarað þessu. Ég ætla að nota minn tíma til að flytja mitt mál og svo tekur þú til máls síðar.
    ( Forseti (SalÞ) : Ekki ávarpa í annarri persónu hér.)
    Ég bið forláts á því.
    Ríkisstjórnin segir ástæður atvinnuleysisins stafa af ytri ástæðum og samdrætti í sjávarafla. Það er mikil einföldun vegna þess að landsframleiðsla hefur aukist og verðmæti sjávarafla hefur orðið miklu hagstæðara en gert var ráð fyrir og haldið hefur verið fram allt fram undir þetta.
    Ég vil ekki gera lítið úr þeim erfiðleikum sem við er að etja í efnahagsmálum þjóðarinnar og vissulega er vandi ríkisstjórnarinnar mikill. Hún er hins vegar ekki eina ríkisstjórnin sem hefur átt við erfiðleika að glíma og hefur auk þess væntanlega verið mynduð til þess að taka á þeim vandamálum sem við er að glíma og upp koma. Það var engan bilbug að finna á forsrh. þegar ríkisstjórnin tók við völdum á vordögum 1991. Ekki var á honum að heyra að hann teldi erfiðleika fyrri ríkisstjórnarinnar mikla né merkilega og hann einbeitti sér að því um margra mánaða skeið sem hann kallaði fortíðarvanda og skipaði meira að segja sérstaka nefnd til að fjalla um þennan meinta fortíðarvanda. Ég vona að næsta ríkisstjórn sem tekur við af þessari láti sér ekki eins annt um vanda núv. ríkisstjórnar því þá mun engin nefnd duga. Ég sé ekki betur en það muni þurfa sérstakt ráðuneyti, ráðuneyti fortíðarvandans, ef svo fer fram sem horfir. Það ráðuneyti mun því miður hafa ærin verkefni.
    En hvað hefur þá þessi ríkisstjórn gert til að taka á atvinnuleysisvandanum? Ríkisstjórnin hóf feril sinn með því að hækka vexti þannig að hvorki atvinnulíf né einstaklingar fengu undir þeim ósköpum risið. Hún fjallaði þannig um efnahags- og atvinnumál að halda mátti að hér væri allt í kaldakoli. Hún fylgdi harðsvíraðri gjaldþrotastefnu sem hefur þegar skaðað íslenska þjóðfélagið alvarlega en engu skilað. Og hún dró tennurnar úr þeim opinberu stofnunum sem helst hafa unnið að uppbyggingu atvinnulífsins á landsbyggðinni og vanvirti störf þess fólks sem þar starfar. Ríkisstjórnin segir að það sé ekki hlutverk stjórnvalda að taka þátt í atvinnurekstri, en þetta mál er bara ekki svo einfalt þó svo ríkisstjórnin segi það. Sveitarstjórnir verða að taka þátt í atvinnurekstri vegna þess að þó ríkisstjórnin geti horft upp á það að byggðarlög veslist upp, þá munu sveitarstjórnirnar ekki gera það. Þær munu gera allt sem þær geta til þess að halda uppi atvinnulífi á stöðunum og þær hafa gert það, m.a. á Akureyri þrátt fyrir að svo mikið atvinnuleysi ríki þar. Afleiðingar þessarar stjórnarstefnu eru óöryggi og vonleysi. Hjól atvinnulífsins hafa hægt á sér og það þarf enginn að vera hissa þó árangurinn sé ekki burðugri en reyndin er á.
    Það verður þó að viðurkenna að ríkisstjórnin hefur að nokkru snúið frá villu síns vegar. Þegar ljóst var að vaxtaokrið var einfaldlega að keyra þjóðina niður lækkaði ríkisstjórnin vextina með handafli, þó að

það væri bannorð í upphafi stjórnarsamstarfsins. Þegar ríkisstjórnin sá að skapast hafði algerlega óviðunandi ástand í atvinnumálum tók hún á sig rögg og viðurkenndi að gera yrði ráðstafanir til að skipasmíðaiðnaður á Íslandi byggi við svipaðar aðstæður og skipasmíðaiðnaður í nágrannalöndunum. Vonandi tekur ríkisstjórnin aftur á sig rögg og grípur til ráðstafana til að rétta skipasmíðaiðnaðinn við, en eigi það að bera árangur þolir það enga bið.
    Fleiri dæmi væri hægt að tína til, en það er hart að búa við að það skyldi taka tvö ár fyrir ríkisstjórnina að komast að því að ýmis þau ráð, sem hún gagnrýndi fyrri ríkisstjórn fyrir að beita, voru þegar allt kom til alls þrautalending hennar sjálfrar, ekki síst vegna þess að svo löngum tíma var eytt í skoðun á fortíðarvandanum.
    Það eru enn blikur á lofti. Enn berjast sterk öfl í ríkisstjórninni fyrir óheftum innflutningi búvara og segja að með því einu verði hagur neytenda helst bættur. Ekki veit ég við hvaða neytendur ríkisstjórnin talar, en það er öruggt að það eru ekki þeir neytendur sem misst hafa atvinnu sína nú þegar vegna samdráttar í búvöruframleiðslunni og það eru örugglega ekki heldur þeir neytendur sem munu missa atvinnu sína ef þessi öfl ná sínu fram. Þessi þjóð mun aldrei geta lifað af innflutningi einum saman, jafnvel þó hann fáist á undirboðsspottprísum fyrst um sinn. Óheftur innflutningur búvara er stórhættulegur þjóðinni og er ekki hagsmunamál neytenda þegar málið er skoðað, ekki síst eins og nú stendur á, stórfellt atvinnuleysi og vaxandi, því miður.
    Þegar menn standa frammi fyrir þeim vanda sem nú er orðinn, vefst fyrir ýmsum hvað beri að gera. Nú verður að styrkja þá atvinnuvegi sem þjóðin býr við því það er mun ódýrara og auðveldara að verja það sem fyrir er en að byggja upp nýtt. Jafnframt verður að rétta við nýjar atvinnugreinar sem hafa átt erfitt uppdráttar, svo sem fiskeldi og loðdýrarækt. Það þýðir ekkert að horfa stöðugt til baka og láta töp og erfiðleika fortíðarinnar blinda sér veginn til framtíðarinnar. Þeim hagnaði sem sjóðir atvinnulífsins hafa dregið sér frá atvinnuvegunum, sem hafa í raun ekki getað staðið undir þeim lánskjörum sem þeim hafa verið boðin, þeim fjármunum má verja til rannsókna- og þróunarstarfs og síðan nýsköpunar og uppbyggingar á grundvelli þeirra starfa.
    Ég hef hins vegar enga trú á því að þessi ríkisstjórn, sem ekki getur einu sinni tekið grundvallarafstöðu í stefnumótun aðalatvinnuvega þjóðarinnar, ég hef enga trú á því að henni takist að koma atvinnumálum þjóðarinnar í þann farveg sem viðunandi er. Hún tók við góðu búi frá fyrri ríkisstjórn, en valdi þann kost að benda á ímyndaða sökudólga í vandamálum sem ekki voru til. Hún lokaði sjálfa sig inni í blindgötu sjálfsvorkunnar og aðgerðarleysis. Þessi ríkisstjórn er ríkisstjórn brostinna vona og glataðra tækifæri og það besta sem hún getur gert í atvinnumálum íslenskrar þjóðar er að fara frá og koma aldrei aftur.