Atvinnuleysið og aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn því

78. fundur
Fimmtudaginn 27. janúar 1994, kl. 13:36:24 (3556)


[13:36]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Með þessum umræðum var ríkisstjórn Íslands gefið tækifæri til að svara því fólki, sem innan tíðar kemur á Austurvöll, hvað ríkisstjórnin ætlar að gera. Hæstv. fjmrh. hefur talað hér, hæstv. utanrrh. hefur talað hér, hæstv. félamrh. hefur talað hér. En því miður er það þannig að fólkið sem innan tíðar kemur hér á Austurvöll hefur engin svör fengið.

    Hæstv. utanrrh. varði allri sinni ræðu við að telja upp tíu atriði sem ríkisstjórnin hefði framkvæmt á valdaferli sínum. Hann sagði orðrétt að ,,atvinnustefna ríkisstjórnarinnar fælist í þessum tíu atriðum``. Hver er árangurinn? Árangurinn er þreföldun atvinnuleysis frá því að ríkisstjórnin tók við. Árangurinn er sá einstæði fundur, neyðarfundur launafólks í Reykjavík, sem verður á Austurvelli innan tíðar. Og hafði utanrrh. eitthvað að segja um hvað ætti að gera nú í vetur? Nei, hann nefndi ekki eitt einasta atriði. Og hvað sagði hæstv. félmrh.? Hæstv. félmrh. gerði ekki annað í dag, í sinni vélrænu ræðu, en að rekja hitt og þetta sem voru eins konar fínpússningaraðgerðir á atvinnuleysinu. Fínpússningaraðgerðir á atvinnuleysinu. Er það virkilega þannig að hæstv. félmrh., ráðherra Alþfl., sjái það eina fram undan að fínpússa atvinnuleysið?
    Hæstv. utanrrh. var auðvitað enn að tala um EES. Hæstv. utanrrh. er að halda til Asíu. Ég óska honum góðrar ferðar. Það sýnir heimssýn þessa utanrrh. að eftir rúm fimm ár í embætti er hann nú að fara sína fyrstu ferð til Asíu, en hefur árlega farið yfir tíu, jafnvel tuttugu ferðir til Evrópu. Hæstv. utanrrh. ætti að átta sig á því að skýringin á því að fyrirtækið Íslenskar sjávarafurðir, önnur öflugustu sölusamtök Íslendinga, jók tekjur sínar á sl. ári, fólst í því að markaðshlutdeild Íslenskra sjávarafurða í Asíu og í Bandaríkjunum óx, en markaðshlutdeildin í Evrópu minnkaði. Það er nefnilega ein skýringin á því hvers vegna atvinnuleysið hefur aukist að þessi ríkisstjórn hefur horft á hið hnignandi markaðssvæði Evrópu sem sína framtíðarsýn. Hún hefur aðhafst það eitt að tengja íslenska hagkerfið við hið hnignandi markaðssvæði heimsins, Evrópu, í stað þess að horfa sókndjörfum huga til þeirra heimssvæða þar sem hagvöxturinn og sóknin í hagkerfinu er mest. Það sýnir fátt betur atvinnustefnu Jóns Baldvins Hannibalssonar að fyrst nú, eftir fimm ára feril í embætti, ætlar hann að halda til Asíu.
    Það eru ekki illgjarnir menn sem hér hafa talað, hæstv. utanrrh. Menn hafa talað hér ekki vegna þess að þeir séu vondir menn heldur vegna þess að þið eru með vonda stefnu. Það er það sem hefur brugðist, það sem þið eigið að játa sem ykkar ósigur.
    Svo var spurt að því: Hvar eru okkar tillögur, okkar sem hér höfum talað? Ég nefndi það hér, taldi óþarfa að rekja það, að Alþb. hefur lagt hér fram heila bók, yfir 100 bls., með mörg hundruð tillöguliðum og ítarlegri greiningu á því hvers vegna núv. efnahagsstefna sé röng og hvernig hið nýja forrit efnahagslífsins á Íslandi eigi að líta út. Þegar ég var að kynna það hér á sl. ári hvernig margar af meginhugmyndum þessarar leiðar tengjast þeirri breytingu sem varð í hagstjórn í Bandríkjunum á síðasta ári með tilkomu nýs forseta, eftir stjórnartíð Reagans og Bush, þá hæddist hæstv. forsrh. að mér. En hvað hefur gerst í Bandaríkjunum? Þó að þar séu enn þá miklir erfiðleikar þá hefur þróuninni verið snúið við. Þá er núna sókn í efnahagslífinu. Þá eru öll helstu einkenni hagkerfisins með öðrum formerkjum vegna þess að stefnunni var breytt. Og það er einmitt það sem er kjarninn í þessari umræðu hér í dag, að án þess að breyta um stefnu verður ekki hægt að snúa þessu við. Ef ekki kemur hér ný ríkisstjórn, með nýja stefnu og nýtt forrit í efnahagsmálum á Íslandi þá verða atvinnulausir Íslendingar því miður að koma áfram á Austurvöll. Koma áfram á Austurvöll til að mótmæla, til að krefjast stefnubreytingar. Þess vegna segi ég við þá ráðherra sem hér hafa talað í dag og engan nýjan boðskap flutt: Þið eigið að sýna manndóm og viðurkenna að þetta hefur ekki tekist, efna til kosninga og láta þjóðina, sem er hæstiréttur okkar, dæma. Alþb. er reiðubúið að leggja sína stefnu í þann dóm. Við erum reiðubúin til að biðja um umboð til að innleiða hér nýtt forrit í hagstjórn á Íslandi. Og við segjum við ríkisstjórnina: Rjúfið þingið, efnið til kosninga, látið ekki bara fundinn á Austurvelli í dag vera tákn um það sem þjóðin er að segja, leyfið þið þjóðinni í kjörkassanum að ákveða hvaða stefna eigi að ríkja á Íslandi.