Atvinnuleysið og aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn því

78. fundur
Fimmtudaginn 27. janúar 1994, kl. 13:42:57 (3557)


[13:42]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Þessar umræður utan dagskrár sem hafa átt sér stað í dag hafa að mörgu leyti verið athygliverðar og ágætar. Ég mun samt fyrst og fremst beina sjónum mínum að atriðum sem ég tel að þurfi leiðréttingar við. Ég vil fyrst harma það að hv. varaþm., Guðmundur Stefánsson, þingmaður Norðurl. e., hélt því fram þegar hann gagnrýndi hv. þm. Tómas Inga Olrich, að hann hefði gleymt að segja frá því að þessi ríkisstjórn hefði ekkert gert fyrri slippstöðina Odda. Það er nú einu sinni þannig að þessi ríkisstjórn gerði það sem sú fyrri gerði ekki og það var að láta nýtt fjármagn í Slippstöðina, 35 millj. kr. og beita sér fyrir sameiningu fyrirtækjanna. Þetta var gert í tíð þessarar ríkisstjórnar til að styrkja stöðu Slippstöðvarinnar og var harla gagnrýnt af öðrum skipasmíðastöðvum. Þetta vil ég að komi sérstaklega fram því að þarna fór hv. þm. ranglega með hlutina og það harma ég að sjálfsögðu.
    Hv. 10. þm. Reykv. flutti hér ræðu, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, nýkomin af fundi um atvinnumál og atvinnuleysismál, og sagði að menn töluðu mikið og lýsti því sem kom fram í minni ræðu, að þar hefði einungis verið minnst á sömu frasana. Sömu frasana! Við skulum skoða þetta örlítið betur. Er það frasi að segja frá því að hér ríki nú stöðugt verðlag sem tryggir kaupmátt og styrkir samkeppnisstöðu fyrirtækjanna íslensku? Er það frasi að skýra frá því að ríkisstjórnin hafi stutt frelsi í viðskiptum og þá einkum viðskipti við aðrar þjóðir? Er það frasi að lækka skatta á fyrirtækjum til að styrkja stöðu þeirra? Það hefur verið gert. Er það frasi þegar sagt er frá því að raungengi íslenskra fyrirtækja sé mjög hagstætt um þessar mundir? Er það frasi þegar sagt er frá því að vextir hafi verið lækkaðir? Er það frasi þegar því er lýst að nokkrir milljarðar hafi gengið til að styrkja atvinnulífið á Íslandi? Þar á meðal með atvinnuskapandi aðgerðum eins og lýst var í ræðu hæstv. utanrrh.
    Allt eru þetta aðgerðir til þess að styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækjanna, samkeppnisstöðu atvinnulífsins, til að koma í veg fyrir aukið atvinnuleysi. Og þingmaðurinn kemur í ræðustól og hefur ekkert annað til málanna að leggja en að segja að þetta séu frasar. Við heimtum að sjálfsögðu betri skýringar á stefnu Kvennalistans heldur en þessa yfirlýsingu.
    Það sem kom fram í þessum umræðum hér í dag og þá einkum hjá hv. þm. Tómasi Inga Olrich, var hvernig sýnt var fram á hvernig gamlar syndir, og ég er ekki að nefna neinn sérstakan stjórnmálaflokk í því sambandi, hvernig gamlar syndir hlaðast upp þegar við reynum að fela dulið, innbyggt atvinnuleysi. Það gerðist með því að við tókum erlend lán á erlend lán ofan og nú er komið að skuldadögunum þegar illa árar. Það hefur komið fram í þessum umræðum að við þurfum í ár að greiða hvorki meira né minna en 51 milljarð í afborganir og vexti, 51 milljarð, m.a. vegna lána sem hafa verið notuð til hluta í atvinnulífinu, til að halda úti atvinnu, til fjárfestinga sem hafa mistekist og við höfum verið að afskrifa 8--10 milljarða núna á þremur árum og verðum að halda því áfram.
    Þetta er það sem stendur upp úr þessari umræðu í dag. Þetta er það sem skýrir m.a. og hefur skýrt best hvers vegna við stöndum í þessum vandræðum í dag. Það kom skýrt fram hjá hv. þm. Það hefur hins vegar ekkert komið frá stjórnarandstöðunni. Það eina sem hefur verið sagt hér er að formaður Alþb. hefur lýst því að hann hafi skrifað bók upp á 100 bls. og ég efast ekki um að það skaffar nokkrum prenturum vinnu að koma þeirri bók út, ég skal ekki mótmæla því. Sú bók lýsir fyrst og fremst bandarískri reynslu. Hann hefur gengið í smiðju til höfunda sem ég þekki suma hverja eins og Lester Thurow sem hafa skrifað ágætar bækur, ég skal ekki mótmæla því. Hann hefur lýst stefnu Clintons Bandaríkjaforseta. En Clinton Bandaríkjaforseti, eins og fleiri stjórnmálamenn í Bandaríkjunum, hefur m.a. haldið úti þeirri stefnu að það eigi ekki að fara evrópsku leiðina. Það eigi að vera meiri sveigjanleiki, meiri launamunur, það eigi að byggja á skammtímavinnu fyrir fólk og það eigi jafnvel að vera hálfsdagsvinna o.s.frv. Er það þetta sem hv. þm. vill sjá?
    Í þessum umræðum, virðulegur forseti, hefur komið fram að við höfum skýrt orsakirnar. Við höfum lýst aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Við höfum sýnt hvernig okkur hefur tekist að koma í veg fyrir aukið atvinnuleysi með okkar aðgerðum. Við höfum borið okkur saman við álit Alþýðusambandsins í nóvember 1992 þegar spáð var 20% atvinnuleysi. Við höfum sýnt fram á það hvernig atvinnuleysið í nágrannalöndunum hefur vaxið miklu hraðar en hér. Það hefur líka komið fram í þessum umræðum að þótt atvinnuleysi sé allt of mikið í þessum mánuði og þeim síðasta þá er von á betri tíð af því að sjómannaverkfallinu er lokið og nú má búast við að atvinnuskapandi aðgerðirnar skili sér. Botninum verður væntanlega náð í ár. Hagvöxtur verður á næsta ári og það er mikilvægt að haldið verði áfram. Íslenska þjóðin þolir að sjálfsögðu ekki og um það erum við öll sammála sem betur fer í dag --- íslenska þjóðin þolir það ekki til lengdar að atvinnuleysið setjist hér að til framtíðar. Þetta er lítið þjóðfélag, viðkvæmt þjóðfélag, þetta er eins og lítil fjölskylda.
    Það mál sem við höfum rætt í dag er mjög mikilvægt. Það er ekki bara mikilvægt fyrir ríkisstjórnina, það er mikilvægt fyrir alla stjórnmálamenn, það er mikilvægt fyrir alla þjóðina og það er mikilvægast af öllu að við höldum áfram að leysa þetta mál með víðtæku samkomulagi stjórnvalda og þeirra sem að málinu hafa komið að undanförnu, sem eru verkalýðssamtökin annars vegar og atvinnurekendur hins vegar. Þannig höfum við staðið að verki og þannig mun ríkisstjórnin áfram standa að þessu verki.