Atvinnuleysið og aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn því

78. fundur
Fimmtudaginn 27. janúar 1994, kl. 13:50:00 (3558)


[13:50]
     Svavar Gestsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Eftir þá umræðu sem hér hefur farið fram um atvinnuleysisvandann, sem verður haldið áfram að ræða úti í þjóðfélaginu, þá er óhjákvæmilegt að spurt sé: Hvenær kemur til umræðu sú skýrsla sem liggur fyrir um afleiðingarnar af atvinnuleysi á íslenskt þjóðfélag, bæði frá félagslegu og efnahagslegu sjónarmiði séð? Sú skýrsla hefur legið fyrir frá því í desembermánuði. Hún var saman tekin á grundvelli þáltill. sem var samþykkt í fyrravor að frumkvæði okkar alþýðubandalagsmanna, sem höfum haldið vakandi umræðu um þessi mál oft í þessari stofnun. Og ég tel að það sé kominn tími til að þessi skýrsla verði tekin hér til umræðu og spyr hæstv. forseta: Hvenær kemur þessi skýrsla til umræðu? Ég tel að það sé brýnt að það gerist strax eftir komandi helgi. Er þess kostur, hæstv. forseti?