Lyfjalög

78. fundur
Fimmtudaginn 27. janúar 1994, kl. 14:22:03 (3566)


[14:22]
     Jóhann Ársælsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Það var samkomulag á fundi með hæstv. forseta og formönnum þingflokka um þessa málsmeðferð. Ég hafði samband við fulltrúa okkar í heilbr.- og trn. en kallaði ekki saman þingflokksfund og hafði ekki samband við nema þá sem urðu á vegi mínum og hér með biðst ég afsökunar á því að hafa ekki reynt að ná í alla þingmenn flokksins til þess að kynna fyrir þeim þetta samkomulag. Mér þótti þetta skynsamlegt og okkur fannst það skynsamlegt að hafa þessa málsmeðferð. Við vissum það vegna þess hve stuttur tími er fram undan hér í dag fyrir þingfund að það yrði ekki hægt að klára umræðuna um lyfjalögin. Hún yrði of löng til þess. Við töldum að það væri gott að menn gætu hlýtt á ræðu hæstv. ráðherra og haft hana til umhugsunar og síðan yrði fundinn góður tími til þess að taka þessa umræðu og klára hana. Ég tel enn að það hafi verið skynsamleg niðurstaða og vonast til þess að menn muni sætta sig við þessa málsmeðferð.