Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

78. fundur
Fimmtudaginn 27. janúar 1994, kl. 14:24:00 (3567)


[14:24]
     Frsm. 1. minni hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd 1. minni hluta allshn. fyrir nál. á þskj. 385 um frv. til laga um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið ásamt brtt. á þskj. 386 en það er aðeins formbreyting sem ekki þarfnast nánari skýringar við.
    Nefndin hafði mál þetta til umfjöllunar á tveimur þingum, bæði 116. og 117., og fékk upplýsingar víða að eins og fram kemur í nefndarálitinu. Með frv. er stefnt að því að fullnægja skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt 34. gr. samnings EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls svokallaðs EES-samnings. Þar kemur nánar tiltekið fram að ef álitaefni rísa við rekstur máls fyrir dómstóli í EFTA-ríki um skýringu samningsins um Evrópska efnahagssvæðið þá eigi slíkur dómstóll að geta leitað eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins um skýringaratriðið áður en málinu verður ráðið til lykta.
    Umrædd 34. gr. EES-samningsins heimilar hverju aðildarríki að EES um sig að ákveða nánar hvaða dómstólar geta farið þessa leið með þeim eina áskilnaði að aðgangur til þessa þurfi að vera fyrir hendi fyrir dómstóla sem kveða upp úrlausnir sem ekki verður skotið til æðri dómstóla. Í frv. er farin sú leið að fullnægja þessu samningsákvæði með því að ráðgera heimild til að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins handa þeim tveimur íslensku dómstólum sem kveða upp óáfrýjanlega dóma, Hæstarétti og félagsdómi. Að auki er lagt til með frv. að aðrir dómstólar geti farið sömu leið því að með 1. gr. er ráðgert að héraðsdómstólarnir, sem er kveðið á um í I. kafla laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989, geti leitað eftir ráðgefandi áliti af þessum toga.
    Með þessum síðastnefnda hætti er e.t.v. gengið lengra í frv. við að veita heimildir til að krefjast álits EFTA-dómstólsins en áðurnefnd 34. gr. EES-samningsins krefur. Ég get hins vegar samsinnt þeim rökum fyrir þessu sem fram koma í athugasemdum við frv., að það sé heppilegra að álits sem þessa verði aflað strax við rekstur máls á fyrsta dómsstigi ef þess gerist þörf á annað borð. Með þeirri tilhögun vinnst í senn að mál verði dæmt á sama grundvelli fyrir báðum dómstigum, bæði fyrir héraðsdómi og Hæstarétti, sem er í samræmi við almennar réttarfarsreglur og að ekki sé hætta á að málsaðili áfrýi máli til Hæstaréttar gagngert til þess að geta krafist að álits EFTA-dómstólsins verði aflað, en sú staða gæti einmitt komið upp ef ekki væri hægt að fá slíkt álit við rekstur máls í héraði. Það hlýtur að teljast heppilegri leið að álit EFTA-dómstólsins liggi sem fyrst fyrir enda gæti það í mörgum tilfellum stuðlað að því að mál sættust þegar álitið lægi fyrir eða eftir atvikum komið í veg fyrir að máli verði áfrýjað. Í slíkum tilfellum mundi það flýta meðferð máls að fá álitið meðan málið er rekið fyrir héraðsdómi en slíkt er til þess fallið að veita réttaröryggi.
    Að öðru leyti tel ég tilefni til að vekja sérstaka athygli á eftirfarandi atriðum varðandi þetta frv.:
    1. Hafa verður það hugfast að frv. felur eingöngu í sér heimild handa íslenskum dómstólum til að leita eftir áliti EFTA-dómstólsins en þetta yrði þeim aldrei skylt. Það er þannig lagt algerlega í vald innlendra dómstóla að ákveða hvort þeir nýta sér þennan kost undir rekstri dómstóls.
    2. Ástæða er til að gefa því gætur að í 1. gr. frv. kemur skýrlega fram að álit EFTA-dómstólsins yrði aðeins ráðgefandi um skýringu á vafaatriðum EES-samningsins. Ráðgefandi álit bindur því ekki íslenska dómstóla við úrlausn málsins heldur er þess eingöngu aflað til leiðsagnar ef dómstóllinn getur samsinnt skýringu EFTA-dómstólsins. Markmiðið með þessu er að sjálfsögðu að leitast við að tryggja samræmda skýringu EES-samningsins fyrir dómstólum aðildarríkjanna og þess væri eflaust að vænta að íslenskum dómstólum þætti vert að taka mið af áliti EFTA-dómstólsins ef á þetta reyndi. Einfaldlega gæti reynt á svo sérhæfð og afmörkuð atriði samningsins í dómsmáli að erfitt væri fyrir innlendan dómstól að leita áreiðanlegrar vitneskju um hvernig einstaka samningsákvæði hafa verið skýrð eða beitt í framkvæmd eftir öðrum leiðum. Þessi leið yrði því til augljóss hagræðis undir slíkum kringumstæðum.
    3. Ekki síst verður að taka það sérstaklega fram að ákvæði frv. gera eingöngu ráð fyrir því að álits EFTA-dómstólsins yrði aflað varðandi skýringu EES-samningsins. Til EFTA-dómstólsins verður því ekki leitað um álit á einu eða neinu öðru, hvorki um efni innanríkisréttar í öðrum samningsríkjum né sönnunaratriði í málið. Það er enn fjær lagi að ræða um að hér sé verið að veita heimildir til að leita álits EFTA-dómstólsins á íslenskum réttarreglum. Heimildin er einfaldlega bundin við atriði varðandi skýringu EES-samningsins. Fyrir vikið er þess varla að vænta að þessi staða geti komið upp í neinum teljandi mæli við rekstur dómsmála hér á landi. Það má því helst lýsa inntaki þessa frv. á þann hátt að þar sé verið að veita íslenskum dómstólum heimild til að afla sér svara um sérhæfð skýringaratriði þessa milliríkjasamnings sem er örugglega mjög fágætt að geti reynt á við rekstur dómsmáls. Auk þess er frv. flutt til að efna um leið skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt áðurnefndri 34. gr. EES-samningsins.