Áhrif af niðurfellingu aðstöðugjalds

79. fundur
Mánudaginn 31. janúar 1994, kl. 15:20:55 (3580)


[15:20]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Það er enginn vafi á því að lækkun aðstöðugjaldsins hefur skilað sér í lækkun verðlags. Það fer ekki á milli mála. Það var þess vegna sem áhrif hinar fyrri gengisbreytingarinnar á haustdögum urðu miklu minni en menn höfðu óttast. Verðlagshækkun vegna gengisbreytingarinnar innan lands varð miklu minni vegna þess að aðstöðugjaldslækkunin skilaði sér betur en menn hugðu. Þetta var einnig mat verkalýðshreyfingarinnar.
    Þegar menn segja að ef maður tekur tæpa 3 milljarða annars vegar og tæpa 5 milljarða hins vegar af aðstöðugjöldum og það hafi ekki allt skilað sér til neytenda þá stóð aldrei til að þetta væri bara tilfærsla af þessu tagi. Það var alltaf sagt að það væri verið að létta sköttum af fyrirtækjum og auka hlut almennings hvað þetta snertir. Til að mynda lækkun aðstöðugjalda sjávarútvegsfyrirtækja, eins og hv. þm. Vestfirðinga sem áðan talaði ætti að vita, skilar sér auðvitað ekki í lækkun til neytenda en bætir væntanlega stöðu þessara fyrirtækja og það er afskaplega mikilvægt upp á atvinnuástandið í landinu og sama er um fleiri slík fyrirtæki að segja. Þessar athugasemdir voru því að sumu leyti að mínu mati nokkuð á misskilningi byggðar.