Útflutningur á íslensku vatni

79. fundur
Mánudaginn 31. janúar 1994, kl. 15:43:46 (3590)


[15:43]
     Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef lagt fyrirspurn fyrir iðnrh. varðandi útflutning á íslensku vatni í neytendaumbúðum. Eins og flestum er kunnugt hafa margir aðilar litið til þessa máls í mikilli von um að talsverður útflutningur gæti hafist af hálfu Íslendinga, sem þegar er reyndar hafinn. En það verður að segjast eins og er að mér finnst að þeim starfskröftum sem eru í þessari útflutningsgrein sé heldur dreift miðað við umfang mála og þá möguleika sem þessi útflutningur gæti haft í för með sér. Fyrirspurnirnar eru eftirfarandi:
  ,,1. Hve mörg fyrirtæki hafa verið stofnuð hér á landi á sl. tíu árum með það að markmiði að flytja út íslenskt drykkjarvatn?
    2. Þurfa þeir aðilar, sem ætla að hefja útflutning á neysluvatni, að sækja um framkvæmdar- og/eða starfsleyfi?
    3. Ef svo er, hversu margir aðilar hafa sótt um slíkt leyfi?
    4. Hefur ráðuneytið eða annar aðili unnið að markaðskönnun varðandi frekari möguleika á útflutningi íslensks drykkjarvatns?``