Útflutningur á íslensku vatni

79. fundur
Mánudaginn 31. janúar 1994, kl. 15:52:05 (3593)


[15:52]
     Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson) :

    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans svör. Það er svo að oftar en ekki hefur það verið rætt manna á meðal hversu framarlega við hlytum að vera í framleiðslu íslensks drykkjarvatns og hafa menn jafnvel verið svo stórtækir eða talað um að það væri rétt að flytja út íslenskt vatn í tankskipum og fleira í þeim dúr.
    Markaðssetningin, eins og síðasti ræðumaður kom inn á, er vissulega stórmál. Þegar ég fór í verslun hér í borg og keypti eina vatnsflösku sem er íslensk, 33 cl, og kostaði 85 kr., sem ekki er í sjálfu sér í frásögur færandi, en þó pakkað inn í plast, og keypti svo aðra sem er innflutt frá Frakklandi og kostaði rúmar 100 kr., glerflaska, þá hljóta menn að sjá í hvaða vanda við erum staddir í sambandi við markaðssetningu hér á þessari ágætu afurð okkar Íslendinga, þessu holla og góða vatni. ( Gripið fram í: Hvort er betra?) Hvort er betra, er kallað hér fram. Ég verð nú að segja að það íslenska er betra. Hins vegar skal ég bjóða þingmanninum hér afsíðis á eftir og skenkja honum í glas og við skulum báðir smakka og vega og meta. ( Gripið fram í: Þurfum við ekki regnhlíf?) En þetta er vissulega stórmál sem er allrar athygli vert og vissulega er nauðsynlegt, eins og kom fram hjá ráðherra áðan, að það þarf auðvitað að setja hér upp nánara og strangara eftirlit þannig að ekkert fari úrskeiðis, því að sagt er að það skipti nokkur hundruð millj. í íslenskum krónum talið sá möguleiki sem Íslendingar eiga í vændum ef vel er staðið að útflutningi á vatni til Bandaríkjanna. Það er sagt að á næstu fjórum árum muni stóraukast sala á vatni þar og vissulega eiga Íslendingar þá mikla möguleika sem ég vona að við berum gæfa til að standa þannig að, bæði að markaðsmálum og útflutningi, að sómi sé að.