Ráðgjöf um sambúðarslit, hjónaskilnað og forsjá barna

79. fundur
Mánudaginn 31. janúar 1994, kl. 16:02:21 (3597)


[16:02]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Þegar lagaákvæðin um sameiginlega forsjá voru tekin upp, þá greiddum við atkvæði gegn þeirri tillögu nokkrir þingmenn, m.a. þingmenn Kvennalista og auk þess nokkrir aðrir, bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu. M.a. minnist ég þess, að hæstv. fjmrh. greiddi atkvæði gegn þeirri tillögu og reyndar fleiri.
    Ástæðan var fyrst og fremst sú að við töldum að hér væri um að ræða faglegt mál sem ætti ekki að skipta mönnum í flokka og það væri varasamt að taka upp sameiginlega forsjá án þess að henni fylgdi mjög veruleg félagsleg fjölskylduaðstoð. Það kemur fram í svari hæstv. dómsmrh. að þessi aðstoð hefur ekki verið veitt og svar dómsmrh. er auðvitað staðfesting þess að það er óhjákvæmilegt að til verði stofnun eða skrifstofa í tengslum við félmrn. sem tryggi það að þeir einstaklingar sem hér um ræðir geti leitað sér faglegrar félagslegrar ráðgjafar. Lögfræðileg þjónusta í þessum efnum dugir því miður ekki.