Tengsl aðila við björgunaraðgerðir hérlendis

79. fundur
Mánudaginn 31. janúar 1994, kl. 16:16:44 (3604)


[16:16]
     Guðmundur Hallvarðsson :
    Virðulegi forseti. Mér finnst þetta mál allt hið athyglisverðasta og þakka fyrirspyrjanda fyrir að hafa hreyft málinu hér. Það hlýtur að segja sig sjálft að það er umhugsunarefni hvernig á því standi að jafnöflugt björgunartæki eins og það sem notað var í þessu tilfelli sem hér er getið skyldi eingöngu hafa haft vegakort um borð til þess að rata eftir meðfram strönd landsins og hvað ekki síst að ekki væri vissa fyrir flugvellinum á Norðfirði hjá þeim sem stjórnuðu þyrlunni er mál út af fyrir sig. Allt er þetta hið sérkennilegasta mál sem vissulega kallar á að grannt sé skoðað.
    Varðandi tíðni fjarskiptatækja í björgunarþyrlum varnarliðsins, að þau séu einnig til um borð í skipum en tíðni þeirra nái ekki til talstöðva björgunarsveita, er náttúrlega einn kafli út af fyrir sig sem þarf að skoða. Það má segja að fljótt á litið sé björgunarþyrlan ekki sú hin sama ef litið er til þess að eðlileg kort eru ekki til staðar og vona ég að dómsmrh. vinni skjótan bug að breytingu þar á svo að betra samstarf megi verða milli björgunarsveita og þessara merku björgunarsveita á Keflavíkurflugvelli.