Tengsl aðila við björgunaraðgerðir hérlendis

79. fundur
Mánudaginn 31. janúar 1994, kl. 16:18:09 (3605)


[16:18]
     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin við fsp. en ýmislegt þyrfti að benda á fleira en fram er komið. Ráðherrann vitnaði til reglna um skipulag og yfirstjórn leitar og björgunar frá 16. maí 1990. Ég vil spyrja í því sambandi hvort farið hafi verið eftir þessum reglum eins og þær koma hér fyrir í þessu tilviki, hvort ráðherra getur upplýst það.
    Varðandi yfirstjórnina sem þá hefur verið í höndum Landhelgisgæslunnar í þessu tilviki, stjórnstöð hennar, og einnig hvort samdar hafi verið nánari reglur sem þessar reglur gera ráð fyrir að samdar verði, sem og hvort endurskoðun hafi farið fram á þessum reglum, en gert er ráð fyrir því að hún fari fram fyrir 1. júní 1993. Það væri gott ef hæstv. ráðherra upplýsti það hvort þetta hafi gerst.
    Spurningin um Almannavarnir sem ég lagði fram er til komin vegna þeirra miklu tengslaleysa sem fram komu við aðgerðirnar sem þarna voru nauðsynlegar og reynt var að framkvæma. Almannavarnir voru ekki virkar eins og ráðherra gat um, en hefði svo verið með einfaldri tilkynningu um að þær kæmu inn í málið þá hefði það gerst sjálfkrafa að sjúkrahúsi svæðisins hefði verið gert viðvart. Það var ekki gert. Það hafði ekki hugmynd um það fyrr en þyrlurnar voru lentar í miðbæ Neskaupstaðar að strand hefði orðið fyrir mörgum klukkustundum, sem fjölmargir vissu um af tilviljun eða vegna þess að haft hafði verið samband við þá. Þá hefði sjálfkrafa verið opnað fyrir flugturninn í Norðfirði í næsta nágrenni og í Breiðdal svo dæmi séu tekin. Þess vegna bið ég hæstv. ráðherra að yfirfara hvort ekki sé æskilegt að taka það mál einnig til athugunar að þarna verði með einhverjum hætti opnað fyrir boðleiðir á milli vegna þess að almannavarnakerfið er þróað kerfi og vel í stakk búið til þess að koma boðum innan svæðis á framfæri.