Olíugjald í stað þungaskatts á dísilbíla

79. fundur
Mánudaginn 31. janúar 1994, kl. 16:32:46 (3609)


[16:32]
     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég er einn þeirra sem hafa áhuga á því að gerð verði þessi kerfisbreyting sem hér er verið að ræða um. Ég tel að það geti orðið til mikilla bóta. Ég kem hér í ræðustól vegna þess að hæstv. fjmrh. sagði að hann stefndi að því að breyta þessu eins fljótt og unnt væri en á fundi samgn. í síðustu viku var mættur vegamálastjóri ásamt starfsmönnum sínum. Einn þeirra hefur tekið þátt í þessum starfshópi, sem var hér um rætt áðan, og á þessum fundi var upplýst að það mundi verða tillaga starfshópsins að halda áfram með það kerfi sem hefur verið í gangi næstu tvö til þrjú árin. Þess vegna kem ég í þennan ræðustól að ég lýsi yfir vonbrigðum mínum með þá hugmynd. Ég var að vonast til að menn mundu komast að hinni niðurstöðunni að reyna nýja leið í þessu sem ég tel að sé miklu affarasælli en þá sem við höfum verið með.